Innlent

Umboðsmaður getur ekki sinnt frumkvæðisathugun vegna fjárskorts

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Tryggvi Gunnarsson telur að embættið þurfi fimmtán milljónir til viðbótar svo það geti sinnt hlutverki sínu.
Tryggvi Gunnarsson telur að embættið þurfi fimmtán milljónir til viðbótar svo það geti sinnt hlutverki sínu. vísir/gva
Embætti umboðsmanns Alþingis hefur engin tök á að kanna mál að eigin frumkvæði sökum fjárskorts og hefur vart getað það frá árinu 2011. Þetta kom fram í máli Tryggva Gunnarsson, umboðsmanns, á opnum fundi stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis í morgun þar sem skýrsla embættisins fyrir árið 2014 var til umræðu.

„Fjölgun kvartana hefur komið okkur í talsvert vesen og við höfum ekki getað sinnt þeim verkefnum sem við eigum að sinna samkvæmt lögum. Við höfum nýtt þær fjárveitingar og mannafla sem við höfum til að sinna þeim kvörtunum sem til okkar berast en það þýðir að frumkvæðisrannsóknir sitja á hakanum,“ sagði Tryggvi.

Frá árunum eftir hrun hefur kvörtunum sem berast umboðsmanni fjölgað úr um þrjú hundruð á ári í rúmlega fimm hundruð. Á sama tíma hefur starfsmönnum embættisins ekki fjölgað og að sama skapi hafa fjárveitingar ekki aukist. Í máli umboðsmanns á fundinum kom fram að ríflega helmingi þeirra kvartana sem embættinu berast séu ekki tækar til meðferðar.

Mikilvægt að borgarinn finni að erindi hans hafi verið skoðað

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins, spurði umboðsmann meðal annars með hvaða hætti embættið hefði brugðist við þessum aukna fjölda. Meðal vangaveltna hans var hvort það hefði komið til álita að senda stutt og stöðluð svarbréf þegar það liggi ljóst fyrir frá upphafi að málið verði ekki kannað af embættinu.

„Fólk sem kvartar til umboðsmanns heldur að brotið hafi verið á rétti sínum og það hefur tekið sér tíma til að skrifa okkur bréf,“ sagði Tryggvi. Hann sagði að flestir þeir sem kvarta til embættisins geri það sjaldan en þó væru dæmi þess að það eigi hálfgerða pennavini.

„Reynslan í nágrannalöndunum hefur sýnt að stutt og stöðluð bréf leiða til þess að málin koma bara aftur. Okkur hefur þótt það mikilvægt að borgarinn finni að við höfum lesið erindi hans og sendum útskýringu á niðurstöðu okkar. Við verðum að finna jafnvægi milli þess að sóa ekki tíma í þessi mál en útskýra niðurstöðuna engu að síður.“

Ítrekað kom fram hjá Tryggva að embættið yrði aldrei stórt og ætti ekki að vera stórt. Í stað þess að fjölga starfsfólki talsvert samhliða auknum fjölda kvartana væri rétt að bæta starfshætti stjórnsýslunnar og reyna að fækka kvörtunum á þann veg. Embættið fékk fjármuni árið 2013 til að útbúa fræðsluefni handa starfsfólki en það efni hefur enn ekki komið út.

„Hluti þessara fjármuna er enn til og eyrnamerktur verkefninu. Eins og málum er háttað núna hefur ekki gefist tími eða mannskapur til þess að ljúka verkefninu,“ sagði Tryggvi.

Aðrir umboðsmenn þurfi ekki að falast ítrekað eftir fjármunum

Í máli Tryggva kom fram að fyrir hrun fékk embættið 110 milljónir á fjárlögum en sé sú upphæð reiknuð yfir á verðlag dagsins í dag nemur sú upphæð í kringum 175 milljónir. Gert er ráð fyrir nú að embættið fái um 170 milljónir til að sinna starfi sínu. Umboðsmaður fór fram á það við fjármálaráðherra að embættið fengi auka fimmtán milljónir svo hægt væri að ráða inn starfsmann til að sinna frumkvæðisathugunum sérstaklega. Ekki var fallist á það í fjárlagafrumvarpinu.

„Ég tel að það þurfi ekki meira. Það þarf ekki her manna heldur aðeins einn duglegan mann til að sinna þessu starfi en til þess þarf fé. Það sést langar leiðir að það er ekki hægt að hafa halda uppi frumkvæðisrannsóknum ef það gefst aðeins klukkutími hér og þar til að skoða þau mál,“ sagði Tryggvi.

Aðspurður um hvernig málum væri háttað í nágrannalöndum okkar sagði Tryggvi að hann þekkti ekki til þess að aðrir umboðsmenn hefðu ekki fengið það fé sem þeir teldu að vantaði upp á. „Það er tekið fram í lögunum að umboðsmaður hafi þetta hlutverk. Það er hins vegar Alþingis að ákveða hvort embættið hafi bolmagn til þess eður ei,“ sagði Tryggvi.


Tengdar fréttir

Ekki svarað fjögurra ára gamalli kvörtun

Heiðar Már Guðjónsson fjárfestir bíður enn svars umboðsmanns Alþingis vegna kvörtunar sem hann sendi embættinu árið 2010. Segir tjón sitt vegna málsins vera um þrjá milljarða króna. Vildi kaupa Sjóvá en aðrir keyptu á mun lægra verði.

Umboðsmaður efast um lögmæti synjunar

Umboðsmaður Alþingis dregur lögmæti synjunar Héðins Unnsteinssonar um vistun á geðsviði Fjórðungssjúkrahúss á Akureyri í efa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×