Skoðun

Landsbankinn sem samfélagsbanki

Helga Þórðardóttir skrifar

Landsbankinn ætlar að reisa sér nýjar höfuðstöðvar hjá Hörpunni. Kostnaðurinn er mikill og ekki að ósekju óttast menn framúrkeyrslu. Það virðist sem bankaráð Landsbankans sé einrátt í þessu máli samkvæmt lögum. Þar með getur fámennur hópur ákveðið að byggja rándýra byggingu fyrir fyrirtæki sem er í eigu almennings að mestu leyti. Ef þessi hópur gerir mistök munu þau lenda á herðum skattgreiðenda. Ef ég skil lögin rétt þá kemur Bankasýslan í veg fyrir aðkomu kjörinna fulltrúa eða almennings á hluthafafundi.Bankastarfsemi virðist vera heilög og ósnertanleg og í raun hafin yfir lög og reglur. Bankar stjórna mun meiru en þjóðkjörnir fulltrúar okkar. Það sást vel þegar þeir fóru á hausinn haustið 2008. Kostnaður mistakanna var lagður á skattgreiðendur, nýir bankar stofnaðir fyrir almannafé og síðan nánast daginn eftir fara þeir að dæla út hagnaði og bónusgreiðslum til æðstu stjórnenda. Þrátt fyrir þessa dýru endurfæðingu á kostnað skattgreiðenda eltast þeir við almenning með nauðungaruppboðum og leggja líf fólks í rúst.Það verður að taka bankastarfsemi til algerrar endurskoðunar. Við verðum að nýta bankastarfsemi almenningi til heilla en ekki öfugt. Það er ekkert sem réttlætir það að bankar mergsjúgi almenning vegna sérstöðu sinnar í þjóðfélaginu.Hvers vegna eru ekki vextir eða annar kostnaður minnkaður í stað þess að byggja monthús niðri við höfn eða hvers vegna eru peningarnir ekki nýttir í byggingu nýs Landspítala? Ef þjóðin væri spurð væri svarið gefið.Það er orðið tímabært að við stofnum samfélagsbanka eins og Dögun stjórnmálasamtök hafa ítrekað bent á. Hið opinbera ætti hann og mestallur hagnaður færi til þjóðarinnar. Samfélagsbanki er ekki fjárfestingabanki eins og Landsbankinn er í dag heldur bara viðskiptabanki fyrir almenna viðskiptavini. Lög myndu takmarka áhættusækni og setja bankanum siðferðilegar skyldur gagnvart ríki og þjóð. Bankinn gæti boðið lægri vexti og betri kjör. Ef bankanum gengi vel væri hægt að nýta hagnaðinn til að lækka skatta eða til velferðarmála. Við ættum bankann fyrir okkur.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Skoðun

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.