Skoðun

Hjúkrun er arðbær forvörn

Ólafur G. Skúlason skrifar
Frá upphafi skipulagðrar heilbrigðisþjónustu hefur hjúkrun verið lykilþáttur í þeim góða árangri sem náðst hefur í meðferð sjúklinga. Góð hjúkrun hefur bætt bæði líðan og lífsgæði fólks og um leið almenna hagsæld.

Öflug hjúkrun er þjóðfélagslega hagkvæm og þegar horft er til framtíðar ætti að tryggja að áhersla sé lögð á hjúkrun, bæði innan sjúkrahúsanna og heilsugæslunnar, eða hins opinbera, eins og það kallast öllu jafna.

Mestur sparnaður næst fram í heilbrigðiskerfinu með því að fyrirbyggja að landsmenn þurfi á heilbrigðisþjónustu að halda. Því ætti að leggja meiri áherslu á forvarnir og heilsueflingu en nú er gert. Þetta eru þeir grunnþættir sem öll stefnumótun og skipulagning í heilbrigðisþjónustunni ætti að byggja á til framtíðar. Hjúkrunarfræðingar hafa ætíð lagt mikla áherslu á bæði heilsueflingu og forvarnir og eru sú heilbrigðisstétt sem einna mest vinnur að eflingu þessara þátta.

Innan heilsugæslunnar vinna skólahjúkrunarfræðingar ötullega í grunnskólum landsins að því að auka heilbrigði skólabarna og fræða þau um mikilvægi þess að hugsa vel um líkamlega og andlega heilsu. Þar auka hjúkrunarfræðingarnir þekkingu skólabarna á heilbrigði og forvörnum með það að markmiði að þau geti sjálf tekið ákvarðanir sem leiða til aukins heilbrigðis. Með því að tryggja framhaldsskólanemum sömu þjónustu með áherslum sem henta eldri hópi er unnt að taka forvarnir á næsta stig. Þannig væri hægt að vinna enn frekar að fyrirbyggingu lífsstílstengdra sjúkdóma s.s. offitu og hjartasjúkdóma, auk þess sem nemendur gætu leitað til hjúkrunarfræðinga vegna andlegrar vanlíðunar og geðsjúkdóma.

Innan sjúkrahúsþjónustu vinna hjúkrunarfræðingar mikið og öflugt starf. Rannsóknir hafa sýnt fram á það að sjúklingum farnast betur, fylgikvillum meðferða fækkar, legutími styttist og endurinnlögnum fækkar þegar hjúkrun er veitt af hjúkrunarfræðingum, sem komast yfir það starf sem þeim er ætlað að sinna. Aukin áhersla á göngudeildarþjónustu þar sem hjúkrunarfræðingar fylgja eftir sjúklingum með langvinna sjúkdóma hefur skilað sér í því að endurinnlögnum þeirra hefur fækkað verulega. Með þessum góða árangri sem skapast hefur vegna starfa hjúkrunarfræðinga hefur sparast fjármagn fyrir ríkissjóð og sjúklingunum farnast betur og komast fyrr út í samfélagið þar sem þeir taka þátt í verðmætasköpun atvinnulífsins.

Það er því ljóst að hjúkrunarfræðingar og störf þeirra eru samfélaginu hagkvæm auk þess sem þjónusta þeirra bætir lífsgæði þeirra sem ekki læknast en það er í raun og veru efni í annan pistil.




Skoðun

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×