Skoðun

Ábyrgð skilar árangri

Guðrún Hafsteinsdóttir skrifar
Að baki er ein snúnasta kjarasamningalota sem aðilar vinnumarkaðarins hafa átt aðild að. Verkefnið var ekki einfalt enda kröfugerð launþegahreyfingarinnar hærri en okkur óraði fyrir. Á sama tíma var ljóst að svigrúm til mikilla launahækkana var takmarkað. Þessa gjá þurfti með einhverjum hætti að brúa. Eftir því sem leið á samningsferlið var ljóst að atvinnurekendur vildu reyna til þrautar að komast hjá vinnustöðvunum sem hefðu getað valdið óbætanlegum skaða. Það tókst sem betur fer en var dýru verði keypt.

Ljóst er að samningarnir koma mjög misjafnlega niður á fyrirtækjum eftir því hvers konar starfsemi fer þar fram. Inni í samningum er varnagli frá hendi launþega um að ef verðlag hækkar umfram laun komi til endurskoðunar á kjarasamningum í febrúar ár hvert. Þarna liggur ábyrgð okkar atvinnurekenda. Við megum ekki láta það henda að forsendur samninga bresti. Nú þegar hafa allmörg fyrirtæki tilkynnt um hækkanir og í ýmsum tilvikum má færa ágæt rök fyrir þeim. Því er hins vegar ekki að leyna að sumar hækkanir komu jafnvel fram áður en blekið á samningum var þornað. Komi til endurskoðunar á kjarasamningum er hætta á að við festumst í vítahring verðlags- og launahækkana sem engu skilar nema hærri vöxtum, veikara gengi og skertum lífskjörum. Inn á þá braut viljum við ekki feta á ný. Við verðum að tryggja kaupmátt og stöðugleika.

Það er deginum ljósara að það er vandasamt verkefni að búa svo um hnútana að hækkanir kjarasamninga renni ekki allar út í verðlag en það er á ábyrgð okkar atvinnurekenda að sjá til þess að svo verði ekki. Samningarnir eru dýrir í byrjun og því er mikilvægt að við dreifum þessum kostnaðarauka yfir allt tímabil samningsins. Beri okkur gæfa til að leysa það farsællega munum við vonandi öll geta litið til baka með stolti til vorsins 2015 og sagt að tekist hafi að tryggja efnahagslegan stöðugleika og kaupmátt launafólks. Ábyrgð skilar árangri.


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.