Viðskipti innlent

Undrast að matur sé ekki með

Sveinn Arnarsson skrifar
Ólafur Þ. Stephensen
Ólafur Þ. Stephensen
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur boðað afnám tolla af tæplega tvö þúsund vörutegundum. Markmiðið er að lækka vöruverð og bæta samkeppnishæfni seljenda á innlendum markaði.

Ekki stendur til að lækka tolla á matvöru í þessum tillögum fjármálaráðherra. Ólafur Þ. Stephensen, framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, undrast að matvara skuli vera undanskilin í þessum tillögum. „Við fögnum að sjálfsögðu afnámi tolla en skiljum ekki af hverju matvara sé þar undanskilin. Það gilda engin önnur lögmál um kaup og sölu á matvælum en öðrum vörutegundum,“ segir Ólafur.

„Tollar hafa hamlandi áhrif á viðskipti og draga úr alþjóðaviðskiptum í heild sinni. Þegar tollur er lagður á innflutta vöru hækkar verðið sem innlendir neytendur þurfa að greiða fyrir vöru,“ segir í tilkynningu frá fjármálaráðuneytinu.

Bjarni tjáði sig um málið á Facebook-síðu sinni í gær þar sem hann sagði verslun með föt og skó eiga sér stað erlendis. „Almenn vörugjöld hafa verið aflögð. Tiltekt í tollum er næst á dagskrá. Þetta eru afar mikilvæg framfaraskref fyrir neytendur, verslun og viðskipti,“ skrifaði Bjarni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×