Viðskipti innlent

Búast við að gengi bréfa í Icelandair hækki

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Búist er við því að gengi bréfa hækki.
Búist er við því að gengi bréfa hækki. vísir/vilhelm
Búast má við frekari hækkunum á hlutabréfaverði Icelandair í vikunni. Þetta kemur fram í afkomuspá fyrir Icelandair Group sem IFS greining gaf út í fyrradag.

Spáin er meðal annars rökstudd með því að farþegum félagsins fjölgar enn. Flutningatölur fyrir júní sýna að félagið flutti 363 þúsund farþega í millilandaflugi í júní og voru þeir 18 prósentum fleiri en í júní á síðasta ári. Segir í afkomuspá IFS að þetta hafi jákvæð áhrif á framlegðina hjá félaginu. Einnig jókst framboð á hótelherbergjum og þrátt fyrir það jókst einnig nýting þeirra.

Á hádegi í gær var gengi bréfa í Icelandair 25,15. IFS greining birti verðmat á Icelandair Group í maí, á sama tíma og uppgjör fyrsta ársfjórðungs var kunngjört. Það var þá mat IFS að virði félagsins væri 23,43 á hlut.

Nú gerir IFS ráð fyrir að afkoma félagsins verði betri en áður hafði verið talið. Auk fjölgunar farþega og betri nýtingar herbergja er ástæðan einkum sú að talið er að olíuverð eigi eftir að verða lægra en frá síðasta virðismati.

Í virðismati Icelandair er fjallað um áhrif væntanlegra flugvélarkaupa á félagið. Gert er ráð fyrir að á árunum 2018-2021 muni Icelandair kaupa 16 nýjar flugvélar og listaverð þeirra sé 1.780 milljónir dala. Þessar vélar séu sparneytnari og muni auka „load factor“ utan háannatíma. „IFS býst við því að hluti af áhættustýringu Icelandair muni felast í því að selja og leigja til baka að minnsta kosti fjórar af þessum nýju flugvélum. Þetta muni draga úr fjárþörf fyrirtækisins,“ segir í virðismati IFS.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×