Viðskipti innlent

Þingmaður ósáttur við viðbrögð banka

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd, er ósáttur við viðbrögð bankanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í efnahags- og viðskiptanefnd, er ósáttur við viðbrögð bankanna. fréttablaðið/vilhelm
„Afstaða bankanna einkennist af hroka og virðingarleysi fyrir hagsmunum almennings,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hann er ósáttur við viðbrögð bankanna við fyrirspurn hans um gengislán hjá þremur stærstu bönkunum.

Hann spurði fjármála- og efnahagsráðherra út í stöðu gengislána hjá Landsbankanum, Íslandsbanka og Arion. Guðlaugur segir að bankarnir hafi dregið að svara fyrirspurnunum sem beint var að ráðherranum, en þremur mánuðum eftir að fyrirspurnin kom fram hafi verið svarað. Guðlaugur segir að Landsbankinn hafi engu svarað efnislega en látið að því liggja að engin mál séu í ágreiningi við viðskiptavini. Guðlaugur segist þó hafa vitneskju um fjölda ágreiningsmála á milli bankans og viðskiptavina hans. Guðlaugur segir að Íslandsbanki hafi ekki svarað og vísað í gögn þar sem svör við þessum upplýsingum sé ekki að finna. „Arion banki svaraði heldur ekki og sagði berum orðum að: ,,Alþingi gegni ekki eftirlitshlutverki gagnvart bankanum.“ Með öðrum orðum, ykkur kemur þetta ekki við!“ segir Guðlaugur. 

„Það eru stórar fréttir ef Alþingi og almenningur munu ekki fá upplýsingar um bankastarfsemi í framtíðinni. Það skal ítrekað að hér var spurt um mjög stóra hagsmuni fyrir fyrirtæki og heimilin í landinu. Ég mun ekki láta hér við sitja og hef vakið athygli forseta þingsins á þessu svarleysi,“ segir Guðlaugur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×