Viðskipti innlent

Ákærður fyrir að reyna að koma skipi undan

Ingvar Haraldsson skrifar
Flutningaskipið er nú í hafnarborginni Boga í Austur-Kongó samkvæmt vefnum Marinetraffic.com.
Flutningaskipið er nú í hafnarborginni Boga í Austur-Kongó samkvæmt vefnum Marinetraffic.com. mynd/Gunnar S. Steingrímsson
Sérstakur saksóknari hefur gefið út ákæru á hendur Ara Axel Jónssyni fyrir brot gegn almennum hegningarlögum. Ara er gefið að sök að hafa valdið kröfuhöfum í þrotabú Dreggjar ehf., sem Ari bæði stýrði og átti, talsverðu fjárhagslegu tjóni.

Dregg ehf. seldi færeyska félaginu Sp/f Dregg flutningaskipið Axel árið 2009 en bæði félögin voru í eigu ákærða. Eftir að Dregg ehf. var lýst gjaldþrota í maí 2012 fór skiptastjóri fram á að viðskiptunum yrði rift þar sem hann taldi að aldrei hefði verið greitt fyrir skipið.

Í lok júní 2012, þremur dögum eftir að Dregg var kyrrsett í Akureyrarhöfn, lét hinn ákærði sigla skipinu til Noregs. Skipið var kyrrsett í Noregi í september að kröfu þrotabús Dreggjar. Samhliða siglingunni til Noregs var eignarhald þess flutt milli þriggja færeyskra félaga sem voru að öllu leyti eða hluta í eigu Ara samkvæmt ákærunni. Í september náðist samkomulag um að greiða ætti þrotabúinu 250 milljónir króna fyrir skipið. Í mars 2013 var Sp/f Saga Shipping lýst gjaldþrota og flutningaskipið selt á nauðungarsölu. 83 milljónir runnu til þrotabús Dreggjar.

Ara er einnig gefið að sök að hafa selt vörulager Dreggjar á 12 milljónir króna ári áður en félagið fór í þrot þegar bókfært kostnaðarverð hafi numið 57 milljónum króna.

Ari hefur lýst sig saklausan af ákærunni. Málið var þingfest fyrir Héraðsdómi Norðurlands eystra 9. júní en búist er við að aðalmeðferð fari fram næsta haust.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×