Skoðun

Farsælt samband orkuvinnslu og ferðaþjónustu

Hörður Arnarson skrifar

Náttúruverðmæti okkar Íslendinga eru mikil. Það vitum við sjálf og það vita þeir fjölmörgu ferðamenn sem hingað koma. Skylda okkar er að hlúa að þessum verðmætum.



Orkuvinnsla og ferðaþjónusta nýta náttúruna í efnahagslegum tilgangi. Um leið er afar mikilvægt að báðar atvinnugreinar geri það á varfærinn og sjálfbæran hátt. Báðar greinar valda óhjákvæmilega nokkru raski, sem þarf að lágmarka. Ábyrgð nýtingaraðila þarf að vera rík og skýr og við þurfum að greina áhrif sem best við getum áður en svæði eru nýtt.



Samstarf orkuiðnaðar og ferðaþjónustu hefur verið farsælt. Aðgengi og aðstaða sem fylgt hafa orkuframkvæmdum hafa verið ferðaþjónustunni mikil lyftistöng.



Þegar aflstöðvar hafa verið reistar njóta þær, og tengdur rekstur, oft vinsælda hjá ferðamönnum. Það þekkjum við frá Bláa lóninu, jarðböðunum í Mývatnssveit, Hellisheiðarvirkjun og gestastofum Landsvirkjunar við Búrfell, Kröflu og Fljótsdalsstöð. Erlendir gestir skipta jafnvel hundruðum þúsunda á ári hverju.



Við hjá Landsvirkjun tökum á móti fjölda erlendra ferðamanna og við verðum vör við mikinn áhuga og ánægju með árangur Íslendinga í orkumálum. Ímynd hinnar hreinu og endurnýjanlegu orku er samofin ímynd Íslands.

Erlendu gestirnir hafa samanburðinn, því í heimalöndum þeirra er eitt helsta verkefnið að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og tryggja orkuöryggi. Glöggt er gests augað.



Jákvætt viðhorf erlendis var staðfest með viðhorfskönnun Iceland Naturally á meðal almennings í Bandaríkjunum á síðasta ári. 67% töldu að notkun Íslands á endurnýjanlegum orkugjöfum yki áhuga þeirra á Íslandi og vörum frá Íslandi. Í sömu könnun kom fram að 49% teldu að endurnýjanleg orka Íslendinga gerði mun líklegra að þeir ferðuðust til Íslands og væri eitt það helsta sem drægi þá til landsins.



Því er full ástæða til að telja að uppbygging ferðaþjónustu og orkuiðnaðar muni áfram geta orðið í góðri samvinnu, til hagsbóta fyrir báðar atvinnugreinar og Ísland.




Skoðun

Skoðun

Konur hlusta á konur og karla, karlar hlusta á karla

Ásta Björg Björgvinsdóttir,Elíza Geirsdóttir Newman,Helga Ragnarsdóttir,Katla Vigdís Vernharðsdóttir,Lára Rúnarsdóttir,Lilja Sól Helgadóttir,Sóley Stefánsdóttir,Steinunn Camilla Stones skrifar

Skoðun

Enginn á að vera hryggur um jólin

Aldís Amah Hamilton,Hulda Jónsdóttir Tölgyes,Klara Ósk Elíasdóttir,Ragnheiður Gröndal,Rósa Líf Darradóttir,Valgerður Árnadóttir skrifar

Skoðun

„Nei“

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Sjá meira


×