Skoðun

Stórir sem smáir sigrar

Sæunn Stefánsdóttir skrifar
Fyrir rúmum áratug kynnti hópur iðjuþjálfa, fólks með reynslu af geðsjúkdómum og fólks úr atvinnulífi, hugmyndafræði um valdeflingu í verki í þjónustu við fólk með geðraskanir. Hugmyndafræðin og þjónustuúrræði byggð á henni voru kynnt stjórnmálamönnum og embættismönnum hjá ríki og borg sem og hverjum þeim sem vildi heyra. Það varð mér til happs að kynnast þessum frumkvöðlum og ég, eins og aðrir sem á vegi þeirra urðu, hreifst af eldmóði þeirra, manneskjulegri sýn á lífið og bjartsýni sama á hverju gekk.

Fyrir áratug var hugmyndafræðin um valdeflingu í verki ekki ríkjandi stefna eins og nú er orðið. Brautryðjendurnir áttu þann draum að koma á fót virknimiðstöð sem myndi bjóða fólki upp á umhverfi sem stuðlaði að bata þess, yki virkni, byði upp á störf við hæfi og styddi síðan við fyrstu skref þess á atvinnumarkaði. Fyrir 10 árum varð draumurinn að veruleika með stofnun Hlutverkaseturs sem í dag fagnar afmæli sínu. Hlutverkasetur býður upp á umgjörð, hvatningu og stuðning fyrir þá sem vilja viðhalda virkni á markvissan hátt eða auka lífsgæðin en eru utan vinnumarkaðar. Starfsmenn og notendur Hlutverkaseturs vinna saman að því markmiði að viðhalda eða efla sjálfsmynd gegnum námskeið, verkefni, fræðslu og umræður.

Hlutverk sem gefa lífi tilgang og þýðingu

Krafan um gæði og árangur er í rík í starfi Hlutverkaseturs enda um að ræða starfsemi sem byggir mestmegnis á framlögum opinberra aðila. Það er óhætt að segja að starfið hafi gefið góða raun en það er ekki síst fyrir tilstilli þess samfélags sem verður til á hverjum tíma í Hlutverkasetri. Notendur þjónustunnar og starfsfólk mynda samfélag ásamt mörgum fyrrverandi notendum þar sem fólk kemur til að hjálpa sér sjálft og um leið að hjálpa öðrum. Sigrar, stórir sem smáir hafa verið margir, sigrar einstaklinga á sínum veikindum og aðstæðum.

Starfsfólk, notendur og stjórn Hlutverkaseturs þakka þann stuðning og traust sem hið opinbera sýnir með samstarfssamningi við Vinnumálastofnun, atvinnulífið með samstarfssamningi við Virk og sveitarfélagið Reykjavíkurborg með samstarfssamningi sínum. Þá á Hlutverkasetur afar gott samstarf við systurstofnanir, geðsvið LSH, velferðarsvið borgarinnar, starfsendurhæfingarstöðvar og félagasamtök sem er okkur afar dýrmætt.

Vinir og velunnarar Hlutverkaseturs, verið hjartanlega velkomin til 10 ára afmælisfagnaðarins í dag milli 15 og 17 í Borgartún 1, sem og á þá mánaðarlegu viðburði á afmælisári Hlutverkaseturs sem framundan eru. Virk samfélagsþátttaka, að sinna hlutverkum sem gefa lífinu tilgang og þýðingu, jákvæðni og kímni er leiðarljós Hlutverkaseturs og verður dagskrá afmælisársins einnig í þeim anda. Verið með!




Skoðun

Skoðun

Vertu drusla!

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir skrifar

Skoðun

Ert þú drusla?

Katrín Sigríður J. Steingrímsdóttir,Elísa Rún Svansdóttir,Lilja Íris Long Birnudóttir,Lísa Margrét Gunnarsdóttir,Margrét Baldursdóttir,Silja Höllu Egilsdóttir skrifar

Sjá meira


×