Skoðun

Við strákarnir

Magnús Orri Schram skrifar
Jafnrétti kynjanna er ekki eingöngu hagsmunamál kvenna, heldur eigum við strákarnir mikið undir því að jafnvægi ríki. Með valdeflingu kvenna sköpum við betri samfélög og bjartari framtíð fyrir dætur okkar, og ekki síður syni. Rannsóknir hafa sýnt að fjölgun kvenna við stjórnun fyrirtækja bætir rekstur þeirra, lengri og betri skólaganga kvenna stuðlar að auknum hagvexti og virkari þátttaka kvenna í stjórnmálum leiðir af sér betri ákvarðanir. Því meira jafnvægi – því betra samfélag.

En við getum ekki látið stelpunum þessa baráttu eftir. Við strákarnir þurfum að taka virkan þátt. Það getum við gert með ýmsum hætti. Ef við reynum að eyða fordómum, berjast fyrir jafnlaunastefnu, og gætum að jafnari verkaskiptingu í heimilisstörfum og við barnauppeldi – getum við jafnað stöðu kynjanna á vinnumarkaði og í samfélaginu öllu. Mörg erum við föst í gömlum ranghugmyndum um hlutverk kynjanna og við strákarnir getum ekki eftirlátið það stelpunum að vinna í málinu. Við strákarnir þurfum líka að taka þátt.

Í dag hefst herferð UN Women á Íslandi sem ber heitið HeForShe – ólíkir en sammála um kynjajafnrétti og hefur það að markmiði að virkja karlmenn til baráttu fyrir auknu jafnrétti. Við hjá UN Women viljum hvetja karlmenn til að skrá sig á vefsíðuna heforshe.is og lýsa yfir stuðningi við verkefnið með því að gerast mánaðarlegir styrktaraðilar. UN Women á Íslandi styrkir verkefni um allan heim sem vinna að jafnrétti, aukinni menntun kvenna og upprætingu ofbeldis.

Strákar – nú er mikilvægt að við stígum fram. Við þurfum að taka virkan þátt í baráttunni og styðja við jafnrétti kynjanna. Skráum okkur á heforshe.is og tökum slaginn með stelpunum. Við strákarnir.




Skoðun

Sjá meira


×