Skoðun

Sjálfboðaliðar vinna að betra samfélagi

Ragnar Þorvarðarson skrifar
Í dag er alþjóðlegur dagur Rauða krossins og Rauða hálfmánans. Um þessar mundir fagnar hreyfingin einnig 50 ára afmæli grundvallarhugsjóna sinna, en ein af þeim hugsjónum er sjálfboðið starf: „Hreyfingin er borin uppi af sjálfboðnu hjálparstarfi og lætur aldrei stjórnast af hagnaðarvon“. Sjálfboðaliðar eru því einn af lykilþáttunum í öflugu Rauðakrossfélagi svo hægt sé að sinna því fjölþætta hlutverki sem hreyfingunni er ætlað í neyðaraðstoð, málsvarastarfi og eflingu á félagslegu öryggi, bæði innanlands sem utan.

Fjöldi virkra sjálfboðaliða

Starfsemi Reykjavíkurdeildar Rauða krossins er hlekkur í stórri keðju deilda og landsfélaga sem starfar um allan heim. Rauði krossinn er mannúðarhreyfing og saman vinnum við að því að koma í verk hlutum sem bæta samfélagið. Í Reykjavík eru um 800 virkir sjálfboðaliðar og þar af er um fjórðungur starfandi á vettvangi kvennadeildar. Hjá deildinni er starfandi sjálfboðaliðasvið, en hlutverk þess er að veita upplýsingar um möguleika á sjálfboðastarfi hjá deildinni, taka á móti nýjum sjálfboðaliðum ásamt því að vinna að þróun nýrra verkefna með sjálfboðaliðum.

Lykillinn að árangrinum

Eins og í mörgum öðrum félagasamtökum leika sjálfboðaliðar afar stórt hlutverk í starfi Rauða krossins á Íslandi, en í stefnu félagsins segir „Sjálfboðaliðar á öllum aldri og úr mismunandi samfélagshópum eru lykillinn að árangri Rauða krossins.“ Starfsemi félagsins byggir því á störfum sjálfboðaliða um allt land með stuðningi starfsfólks, en skipulagið miðast við að starf félagsins nýtist sem best þeim sem eru berskjaldaðir. Það er bæði gefandi og ánægjulegt að vera sjálfboðaliði Rauða krossins og taka þannig þátt í því að skapa betra samfélag. Nánari upplýsingar um sjálfboðastarf Rauða krossins má finna á vef okkar, raudikrossinn.is.

Umræður um grundvallarhugsjónir

Í tilefni af áðurnefndum tímamótum stendur Rauði krossinn á Íslandi fyrir málþingi, sem fram fer í Norræna húsinu í dag klukkan 13. Þar munu án efa skapast áhugaverðar umræður um mikilvægt hlutverk sjálfboðaliða í hreyfingunni, en sjö frummælendur munu þar ræða grundvallarhugsjónir Rauða krossins út frá eigin sjónarhorni.




Skoðun

Sjá meira


×