Skoðun

Lífsgæðin betri þegar einangrunin er rofin

Eymundur L. Eymundsson skrifar
Það að vera með geðsjúkdóm er oft erfitt en vonin er mikilvægur þáttur í að geta náð góðum bata ef ekki fullum bata. Það að hitta aðra sem glíma við það sama, að rjúfa einangrun, fá stuðning og skilning styrkir mann.

Ýmsar leiðir eru til og ekki allt sem hentar hverjum og einum. En fyrsta skrefið er að fræðast um sinn sjúkdóm og fá hjálp. Að efla þekkingu með fræðslu hefur mikið forvarnargildi í okkar samfélagi. Að geta talað um tilfinningar sínar í staðinn fyrir að berjast á móti straumnum gefur manni betri líðan.

Það að stuðningur komi frá samfélaginu hjálpar einstaklingum og aðstandendum að taka skrefið og fá hjálp. Sem betur fer eru þessi mál að opnast, yngra fólkið og aðstandendur hafa tækifæri á hjálp með þeirri þekkingu sem er á geðsjúkdómum í dag. Áður fyrr var ekki eins mikil þekking og margir hafa þurft að berjast í gegnum lífið án þess að fá hjálp.

Grófin – geðverndarmiðstöð

Segja má að Grófin sé ávöxtur grasrótarhóps notenda og fagfólks, sem hittist á vikulegum fundum um tveggja ára skeið. Niðurstaða þeirrar vinnu var að byggja á farsælu starfi Hugarafls í Reykjavík og tók Geðverndarfélagið af skarið sumarið 2013 um að taka á leigu húsnæðið að Hafnarstræti 95 og hefja starfsemina alfarið með sjálfboðastarfi, í trausti þess að önnur meginstoð Hugaraflsmódelsins, launað starf fagaðila, yrði að veruleika í fyllingu tímans með stuðningi opinberra aðila.

Sálfræðingur var svo ráðinn 1. október 2014 og í framhaldi af því lengdum við opnunartímann og er hann í dag frá 10.00 til 16.00. Hópastarf gengur vel, fræðsla og forvarnir í skólum komnar í undirbúning með forvarnarfulltrúum Akureyrarbæjar. Samstarf við Háskólann og Menntaskólann á Akureyri gengur vel. Vonum að Akureyrarbær muni koma að okkar rekstri en það hefur sýnt sig á þessum stutta tíma hvað þetta er að gera fyrir fólkið.

Við störfum samkvæmt hugmyndafræði valdeflingar (e. empowerment), þar sem áherslan er á að einstaklingurinn taki ábyrgð á eigin bata og að öll vinna fari fram á jafningjagrunni.

Markmið Grófarinnar

  • Að skapa tækifæri fyrir þá sem glíma við geðraskanir til að vinna í sínum bata á eigin forsendum og eigin ábyrgð í samræmi við hugmyndafræði valdeflingar.
  • Að skapa vettvang fyrir alla þá sem vilja vinna að geðverndarmálum á jafningjagrunni, hvort sem þeir kallast notendur geðheilbrigðisþjónustunnar, fagaðilar, aðstandendur þeirra sem glíma við geðraskanir, eða eru einfaldlega áhugamenn um framfarir í geðheilbrigðismálum.
  • Að bæta lífsgæði þátttakenda.
  • Að efla virkni fólks sem glímir við geðsjúkdóma í hinu daglega lífi.
  • Að standa fyrir hópastarfi fyrir notendur og aðstandendur.
  • Að standa fyrir fræðslu fyrir notendur og aðstandendur.
  • Að stuðla að aukinni þekkingu á bataferlinu með áherslu á að hægt sé að ná bata og að hægt sé að fara fjölbreyttar leiðir í bataferlinu.
  • Að miðla von og reynslu milli notenda. Vonin er lykilatriði í því að ná bata.
  • Að vinna að fræðslu og forvörnum í samfélaginu til að auka skilning og draga úr fordómum gagnvart þeim sem eru að glíma við geðraskanir.
  • Að stuðla að bættri nálgun í geðheilbrigðiskerfinu þar sem hugmyndir valdeflingar um notendasýn og bataferli á jafningjagrunni fái aukið vægi.
Innan Grófarinnar starfar einnig Unghugahópur og aðstandendahópur.

Nýliðakynningar eru á föstudögum frá 13.00-14.00 en annars er alltaf hægt að hringja í síma 462-3400, hvenær sem er á opnunartíma, eða senda fyrirspurnir á grofin@outlook.com og verður svarað eins fljótt og hægt er.

Grófin er til húsa í Hafnarstræti 95., 4. hæð, á Akureyri, fyrir ofan Apótekarann í göngugötunni. Opnunartími er alla virka daga frá 10.00-16.00.

grofin.wordpress.com

Höfundur komst úr myrkrinu með góðri hjálp.




Skoðun

Sjá meira


×