Skoðun

Að vilja eldast en ekki verða gamall

Helga María Guðmundsdóttir skrifar
Það er oftast talið eftirsóknarvert að lifa lengi. Á árum áður var mikil virðing borin fyrir eldra fólki enda bjó það yfir kunnáttu sem talin var eftirsóknarverð. Leitað var til þeirra með ráðleggingar þar sem reynslan var talin dýrmæt, þekking þeirra var vel metin og var þessari visku miðlað yfir til næstu kynslóðar.

Í dag er talað um það sem allir vilja verða en enginn vill vera. Jú, það er að vera gamall. Það er ekki dregin upp falleg mynd af eldra fólki í samfélaginu. Sem dæmi er gamalt fólk næstum aldrei notað í auglýsingum né í sjónvarpi almennt, þar sem það telst ekki góð söluvara.

En við eigum að fagna því að þjóðin sé að eldast, það þýðir að við séum að gera eitthvað rétt. Það þarf að bera virðingu fyrir þeim sem ná þeim áfanga að eldast sem er þrotlaus vinna gegnum allt lífið. Meðalaldur þjóðarinnar fer hækkandi og til samanburðar má benda á að miðað við 1. janúar 2015 var hann 37,5 ár en ef við förum aftur til ársins 1955 var hann 29,6 ár (Hagstofan). En hvað á að gera við allt gamla fólkið?

Koma tímar, koma ráð. Eða hvað. Þessi kynslóð byggði það samfélag sem við búum í og barðist fyrir þeim réttindum sem talin eru vera sjálfsagður hlutur í dag, eins og að kjósa og að mennta sig. Þetta fólk er stolt og flestir vilja búa í heimahúsum eins lengi og þeir mögulega geta, en þegar sá tími kemur að þau þurfa aukna aðstoð heima eða þurfa jafnvel sólarhringsaðstoð á hjúkrunarheimilum þurfum við að koma með úrræði. Eldri borgarar eiga ekki að sitja fastir inni á spítala svo vikum skiptir á meðan leitað er að stað fyrir þá í samfélaginu okkar.

Eldri borgarar eiga meira skilið en við erum að bjóða upp á í dag. Allavega vona ég að sú þjónusta verði í boði sem ég þarf á að halda í framtíðinni, ef ég verð svo heppin að ná góðum aldri.




Skoðun

Sjá meira


×