Skoðun

Ertu alltaf að reyna eitthvað?

Matha Árnadóttir skrifar
Pattý vinkona mín er engum lík eins og ég hef áður lýst í blogginu mínu, en Pattý er aðstoðarbloggarinn minn og mentor í lífinu. Síðast þegar við töluðum saman spurði hún mig hvað væri fram undan hjá mér og ég sagði bara eitthvað á þennan veg: „Bara same old, same old…“ Pattý horfði á mig og úr augum hennar skein „same old – hvur andskotinn er það?“.

Hvur andskotinn er „same old“?

Já, hvað er þetta „same old“ – hvað var ég að meina? Jú, ég fer í vinnuna, hjóla, fer í ræktina og geri svo eitthvað skemmtilegt. Pattý horfði á mig og sagði: „Sýndu mér æfingaplanið þitt.“ „Ha, æfingaplanið? Ég þarf ekkert æfingaplan, ég reyni bara að hreyfa mig eitthvað á hverjum degi,“ sagði ég.

Hvað er reyna og eitthvað?

Ég sá að Pattý varð svört í framan, hún leit á mig og sagði: „Reynir að hreyfa þig eitthvað á hverjum degi, hvað er þetta reynir og eitthvað? Ertu kannski enn þá að reyna að losna við sömu fimm kílóin og fyrir fimm árum, enn þá að reyna að lyfta fimm kílóa lóðunum upp fyrir hausinn á þér, enn þá að reyna að skokka fimm kílómetra án þess að stoppa, alltaf að reyna og reyna…eitthvað?“ 

Ég stórmóðgaðist og spurði hvernig hún gæti talað svona við mig, bestu vinkonu sína? Pattý varð rasandi hissa og spurði: „Svona hvernig?“ Einmitt, það vantar alla filtera í Pattý og tæpitunguna líka.

Galdrarnir eru í planinu

Pattý ýtti þarna á vonda takka og eins og svo oft áður vissi ég innst inni að hún hafði rétt fyrir sér, það þýðir ekkert að vera alltaf að reyna eitthvað, reyna að hreyfa sig eitthvað á hverjum degi, hvað er það?

Ég veit í hjarta mínu svo vel að ef ég vil að eitthvað verði að veruleika í lífi mínu verð ég að vita nákvæmlega hvað það er og að stilla upp plani. Í planinu liggja galdrarnir. Þegar það er klárt er leiðin hálfnuð, eiginlega áður en ég geri nokkurn skapaða hlut annan. Að reyna og eitthvað er að verða værðinni að bráð – og akkúrat þannig týnist tíminn!




Skoðun

Sjá meira


×