Innlent

Fimm ár frá jarðskjálftanum á Haítí

Stefán Árni Pálsson skrifar
Systur sem fengu nýtt heimili hjá SOS eftir skjálftann.
Systur sem fengu nýtt heimili hjá SOS eftir skjálftann. vísir/sos
Þann 12. janúar næstkomandi eru fimm ár liðin frá jarðskjálftanum mikla á Haítí. Yfir 220 þúsund manns létust í hamförunum og um 300 þúsund slösuðust. Eyðileggingin var gríðarleg, einkum í höfuðborginni, Port-au-Prince. Í tilkynningu frá SOS Barnaþorpum kemur fram að samtökin hafi starfað á Haítí frá árinu 1979 og hafa því mikla reynslu af hjálparstarfi á staðnum.

Strax í kjölfar skjálftans hófu samtökin neyðaraðstoð en um er að ræða umfangsmestu neyðaraðstoð sem samtökin hafa sinnt.

SOS Barnaþorpin settu upp 112 starfsstöðvar í Port-au-Prince þar sem nauðstöddum var boðinn heitur og næringarríkur matur. Alls fengu 24 þúsund börn og fjölskyldur þeirra aðstoð á þessum starfsstöðvum. Þá veittu sérfræðingar SOS fjölskyldum áfallahjálp og læknisaðstoð ásamt því að skipuleggja kennslu og tómstundir fyrir þúsundir barna.

SOS Barnaþorpið í Santo tók við 400 börnum sem misst höfðu ættingja sína eða orðið viðskila við þá í hamförunum. SOS reyndu að hafa uppi á ættingjum barnanna en því miður var það ekki alltaf mögulegt og því fékk fjöldi barna varanlegt heimili hjá SOS Barnaþorpunum. Ekki var pláss fyrir öll þessi börn í barnaþorpinu í Santo og því reistu samtökin bráðabirgðahúsnæði fyrir börn og SOS mæður.

Markmiðið var þó alltaf að byggja nýtt SOS Barnaþorp sem nú er tilbúið. Þorpið er staðsett í Les Cayes og verður formlega opnað laugardaginn 10. janúar. Fjölskyldurnar hafa þó flutt inn á nýju heimilin. Þá standa yfir endurbætur á SOS Barnaþorpinu í Santo en þorpið hefur látið á sjá vegna álags eftir að börnum í þorpinu fjölgaði svo skyndilega. Utanríkisráðuneyti Íslands kom meðal annars að fjármögnun verkefnisins með 11,9 milljóna króna framlagi.

Í dag eru þrjú SOS Barnaþorp starfandi á Haítí en þar hafa yfir 500 börn fengið nýtt heimili. Þá reka samtökin 26 samfélagsmiðstöðvar í  Port-au-Prince þar sem 3000 börn fá aðstoð og 16 samfélagsmiðstöðvar í  Cap Haiten þar sem 800 börn fá aðstoð. Einnig reka samtökin skóla, leikskóla og verknámsskóla í landinu en 29 Íslendingar styrkja börn í tveimur SOS Barnaþorpum á Haítí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×