Skoðun

2015 sögulegt ár fyrir SÞ

Berglind Sigmarsdóttir skrifar
Árið 2000 komu þjóðarleiðtogar heims saman á vegum Sameinuðu þjóðanna til að samþykkja Þúsaldarmarkmiðin svokölluðu. Markmiðin voru mótuð af fámennum hópi í kjallaraherbergi SÞ í New York, umhverfismarkmiði var skotið inn í á síðustu stundu. Þetta var í fyrsta skipti sem svo skýr markmið voru sett fram til að minnka fátækt í heiminum. Markmiðin eru átta og hefur þremur markmiðum verið náð á þessum 15 árum. Það hefur tekið tíma fyrir alþjóðasamfélagið að vinna eftir slíkum markmiðum og árangurinn hefði getað verið meiri, en þróunin er í áttina og enn eru ellefu mánuðir til stefnu.

Árið 2015 koma leiðtogar frá aðildarríkjum SÞ saman á ný til að meta árangur markmiðanna og endurnýja. Ferlið hefur verið eitt það markverðasta í sögu samtakanna og eflaust með flóknari stefnumótunarferlum sem um getur, 193 aðildarríki og óteljandi hagsmunahópar. Markvisst hefur verið reynt að fá sem flesta að mótun þeirra, bæði almenning, stjórnvöld og félagasamtök. Allir eiga hagsmuna að gæta við þetta samningaborð og það hefur klárlega flækt málin.

Drög að markmiðunum voru birt í skýrslu framkvæmdastjóra SÞ í desember sl., um er að ræða 17 markmið með 169 undirmarkmiðum (sjá nánar á 2015.is). Samningaviðræður standa nú yfir með mánaðarlegum fundum í New York fram á sumar, síðan tekur Allsherjarþingið lokaákvörðun í september. Þessi markmið munu gefa ríkjum heims þann möguleika að stefna á sjálfbærni að öllu leyti, ekki bara ríkisrekstri heldur fyrir alla vinkla samfélagsins jafnt sem einstaklinga. Vinnuheiti markmiðanna hefur verið „sjálfbæru þróunarmarkmiðin“ og verða þau líklega sett til 15 ára á ný.

Þessi gríðarstóra markmiðasetning um þróun heims er ekki það eina stórtæka á árinu. Sameinuðu þjóðirnar fagna í ár 70 ára starfsafmæli sínu, sem gefur okkur tækifæri til að líta til baka á framlag samtakanna til friðar, mannréttinda og þróunar. Í tilefni þessara tímamóta hafa samtökin lýst því yfir að 2015 verði tileinkað ljósinu/ljóstækni og jarðveginum. Á þeim vettvangi verða ýmsir viðburðir hér á landi til að vekja athygli á þeim málaflokkum. Það er kraftur í árinu, það eru sterkir hópar um allan heim með kröfur um aðgerðir, sérstaklega í kringum mótun nýrra markmiða en einnig í kringum loftslagsmálin. Í tilefni af ári ljóssins er ekkert annað í boði en að vera bjartsýn! Slík alheims markmiðasetning er söguleg og vonandi tekst með henni að skapa sanngjarnari og sjálfbærari heim.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×