Skoðun

Forsetinn verði fátæk eða fötluð

Kristín Elfa Guðnadóttir skrifar
Nei, ég ætla ekki í framboð. En ég vil fá forseta sem hefur fengið á sig brotsjói. Sem skilur hvað er að vera fátæk. Sem hefur aftur og aftur gengið eða skellt hjólastólnum á lokaðar dyr.

Forseta sem er auðmjúkur andspænis þessari dásamlegu gjöf sem lífið er. Forseta sem er ekkert sérstaklega fallegur, í fínum fötum, á fínum bíl eða vel menntaður. Alls ekki forseta sem ræður vel við afborganir af fína einbýlishúsinu sínu.

Ég vil forseta sem hefur bara séð silfur- og gullskeiðar í búðargluggum. Forseta sem er ekki „frambærilega forsetaefnið“ sem forréttindafólkið leitar að – og mun finna. Ég vil forseta sem brennur fyrir jafnrétti og kærleika.

Ég ætla að skjóta því inn hér, til að vera nú alveg heiðarleg, að helst vil ég engan forseta. (Mér finnst líka aldursskilyrðið fáránlegt). Ég vil að embættið verði lagt niður. Að Bessastöðum verði breytt í lúxushótel um helgar fyrir fátækt fólk, fatlað fólk, veikt fólk, einstæða foreldra sem geta aldrei boðið börnunum í frí, gamalt fólk, einmana fólk. Á virkum dögum mega Bessastaðir svo gjarnan vera lýðræðissetur og lýðræðissafn þar sem unnið er sleitulaust að kynningu á, vinnu í og samræðu um hvernig efla má lýðræði.

En þetta er ekki að fara að gerast fyrir næstu forsetakosningar. Til þess þarf stjórnarskrárbreytingu. Og hún tekur tíma.

Í millitíðinni sætti ég mig við forseta sem er fátæk eða fötluð nema hvort tveggja sé.




Skoðun

Sjá meira


×