Skoðun

Af efa

Árni Páll Árnason skrifar
Það er svo sem engin frétt, en ég velti því reglulega fyrir mér hvort aðild að ESB henti íslenskum hagsmunum. Ég skrifaði meðal annars um það álitamál greinabálk sem birtist í þessu blaði árið 2012. Niðurstaða mín þá var að Ísland ætti áfram að stefna að aðild að ESB og er sú afstaða mín óbreytt. Fréttir gærdagsins byggðu á mistúlkun á orðum mínum, en náðu samt sem áður að valda ástæðulausum vangaveltum um hvort Samfylkingin hefði breytt um stefnu. Því fer fjarri.

Það ætti ekki að vekja með fólki ótta eða óvissu að stjórnmálafólk efist. Efinn er nauðsynlegur. Frekar ætti að varast þá sem efast aldrei og endurskoða aldrei viðhorf sín og stefnu. Blind trú á töfralausnir hefur ekki reynst Íslendingum vel.

Aðild að ESB er ekki trúaratriði, heldur praktísk nauðsyn út frá köldu mati á íslenskum hagsmunum. Hagsmunir geta breyst frá einum tíma til annars og ESB er í stöðugri þróun og ekkert óeðlilegt að leggja reglulega mat á hana. Aðild að ESB er nefnilega ekki markmið í sjálfri sér, heldur leið til að tryggja betur kjör almennings og öflugra atvinnulíf.

Evrópusamruninn hefur skapað Íslandi gríðarlegan ávinning frá því að við urðum aðilar að EES. En veikleikar krónunnar hafa kallað yfir okkur verra fjármálaáfall en ella og læst okkur í viðjum gjaldeyrishafta. Fólk flýr land í vaxandi mæli og þeir sem fóru strax eftir hrun koma ekki heim. Fyrirtækin flýja land og þekkingarfyrirtæki vaxa í útlöndum.

ESB glímir nú við ýmis flókin úrlausnarefni í kjölfar fjármálakreppu. Það gerum við líka. Samfylkingin vill halda í ávinninginn af Evrópusamrunanum og treysta hann í sessi með aðild að ESB. Ég á ekki von á öðru en að Samfylkingin ítreki þá afstöðu sína á Landsfundi 20.-21. mars nk.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×