Skoðun

Pólitískar hamgærur

Sigurjón Baldur Hafsteinsson skrifar
Starfsmenn náttúruminjasafna þurfa oft að fást við óboðna gesti á borð við hamgærur (Reesa vespulae). Þetta eru lítil kvikindi, lirfan 5 mm, en bjallan 3 mm, og þrífast þau innanhúss við hita og þurrk. Hamgærur þrífast vel í skordýrasöfnum, á uppstoppuðum dýrum, plöntusöfnum og þær éta einnig skinn og þornað hold. Hamgærur geta valdið miklum usla og skemmdum á söfnum og eru því sérstaklega óvelkomnar. En hætturnar sem steðja að gripum og starfsemi náttúruminjasafna eru fleiri og ekki síst ógnvænlegri. Þolleysi, úrræðaleysi og frestunarárátta í bland við skilningsleysi pólitískt kjörinna fulltrúa getur valdið bæði usla og skemmdum á náttúruminjum og er saga Náttúruminjasafns Íslands gott dæmi um það.

Alþingi Íslendinga hefur samþykkt tvenn lög sem gert hafa Náttúruminjasafn Íslands að höfuðsafni á sviði náttúruminja, fyrst safnalög frá 2001 og síðar lög um Náttúruminjasafn Íslands frá 2007. Um þá lagasetningu ríkir almenn sátt, en þeir fulltrúar sem hafa samþykkt lögin og svo þeir sem komið hafa á eftir og sitja á Alþingi virðast ekki hafa úthald í að knýja á um að þessi lög komi til framkvæmda.

Framkvæmdarvaldið stendur að því er virðist algerlega úrræðalaust í málefnum safnsins, en samkvæmt síðustu fréttum, stendur það núna á götunni – eða ætti ég frekar að segja, úti í náttúrunni – húsnæðislaust og með litlar fjárveitingar til starfseminnar sem eru í engu samræmi við hlutverk þess og markmið. Frá formlegri stofnun safnsins árið 2007 hafa fjárveitingar til þess farið minnkandi og hvert áfallið á fætur öðru, fyrir tilstuðlan framkvæmdarvaldsins, orðið þess valdandi, að stofnuninni er gert ómögulegt að starfa. Þrátt fyrir að bent hafi verið á mjög vænlegar leiðir til að koma fótum undir starfsemi safnsins s.s. eins og með uppsetningu sýningar í Perlunni, og í þokkabót með hvatningu frá fjölmörgum félagasamtökum og samningsgerð við fjársterka aðila eins og Reykjavíkurborg, er sem algert úrræðaleysi og skilningsleysi hrjái framkvæmdarvaldið.

Í þessu ljósi eru hamgærur hálfdrættingar í samanburði við framferði pólitískt kjörinna fulltrúa gagnvart Náttúruminjasafni Íslands. En þeir síðastnefndu valda ítrekað eyðileggingu á uppbyggingu stofnunar sem ætti að vera Íslendingum mikið kappsmál að sé til staðar og til fyrirmyndar.




Skoðun

Sjá meira


×