Lífið

Á ferð og flugi víðsvegar um Evrópu á þessu ári

Gunnar Leó Pálsson skrifar
Andri Björn Róbertsson tekur þátt í sýningu sem er að gera það gott í Evrópu.
Andri Björn Róbertsson tekur þátt í sýningu sem er að gera það gott í Evrópu. vísir/stefán
Óperusöngvarinn Andri Björn Róbertsson tekur um þessar mundir þátt í sýningu sem kölluð er Trauernacht og er sett saman úr aríum, resitatífum, kórum og kórölum úr kantötum Bachs. Allt eru þetta trúarlegir textar sem fjalla á einhvern hátt um dauðann.

„Þetta er í rauninni ekki óperuhópur, heldur er þetta sýning sem sett var upp á Festival d‘Aix en Provence í Suður-Frakklandi síðastliðið sumar, sem er ein stærsta óperuhátíð í heimi,“ segir söngvarinn Andri Björn Róbertsson.

Í sýningunni eru fimm söngvarar, fjórir ungir (sópran, alt, tenór, bassi) sem eru fjögur systkini og einn eldri (bassi) sem leikur föður þeirra.

„Sýningin fjallar um hvernig þessi fjögur systkini takast á við dauða föður síns og hafði mikil áhrif bæði á áheyrendur og okkur sjálf þegar við sýndum í Frakklandi síðastliðið sumar,“ segir Andri Björn.

Hópurinn er á leiðinni með sýninguna til Amsterdam í Hollandi og Valence í Frakklandi. „Við förum svo síðan til Parísar í apríl, Bordeaux í september, Lissabon í nóvember og líklega til Óslóar og Kölnar vorið 2016,“ bætir Andri Björn við. Ekki liggur fyrir hvort sýningin komi til Íslands.

Barokkhljómsveitinni stjórnar Raphaël Pichon, sem er ungur og upprennandi stjórnandi í klassíska heiminum. „Hann hefur að mínu mati snilligáfu í tónlist sem ekki er mörgum gefin.“ Katie Mitchell leikstýrði og er hún mjög virt í leikhúsheiminum, sérstaklega á meginlandinu. „Þau eru bæði mikið áhugafólk um Bach og settu þetta verkefni saman í samstarfi við tónlistarhátíðina.“

Andri Björn hefur búið og starfað í Zürich síðan í ágúst þar sem hann er í óperustúdíói óperuhússins. „Ég hef síðan komist að því að óperustúdíóið er meira eins og hópur ungra fastráðinna söngvara við óperuhúsið sjálft, því við syngjum öll þó nokkur hlutverk og erum einnig varamenn fyrir stærri hlutverk,“ segir Andri Björn.

Hann er búinn að syngja þrjú hlutverk nú þegar; Der König í barnaóperunni Die Gänsemagd, Brabantischer Edle í Lohengrin og svo Sprecher í Töfraflautunni.

„Auk þess hef ég verið varamaður fyrir Fígaró í Brúðkaupi Fígarós, þar sem ég þurfti að „stökkva inn“ í hlutverkið á generalprufunni, sem var mjög gaman og mikil reynsla. Svo verð ég varamaður fyrir Dulcamara í Ástardrykknum í júní. En þetta hefur verið mikil reynsla sem ég mun búa að.“

Næsta vetur verður hann þó ekki áfram í stúdíóinu, en óperuhúsið sjálft hefur boðið honum gestasamning fyrir tvö hlutverk, annars vegar í King Arthur eftir Purcell og í Töfraflautunni eftir Mozart. „Ég ferðast um með sýninguna frá Aix og síðan er eitt og annað að gerast og í startholunum.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.