Viðskipti innlent

Hér eru aðstæður Össuri mótdrægar

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, fór yfir batnandi hag félagsins á kynningarfundi í gær. Hagnaður jókst um 45 prósent á milli ára.
Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, fór yfir batnandi hag félagsins á kynningarfundi í gær. Hagnaður jókst um 45 prósent á milli ára. Fréttablaðið/Valli
Össur býr við mjög óeðlilegt ástand með þrjátíu prósent hlutafjár félagsins föst innan gjaldeyrishafta í Kauphöll Íslands, að mati stjórnenda félagsins.

Þó að stjórn félagsins sé orðin langþreytt á því rekstrarumhverfi sem það býr við hér hafi þó engar ákvarðanir verið teknar enn um flutning þess úr landi.

Þetta kom fram í máli Jóns Sigurðssonar, forstjóra Össurar, og Sveins Sölvasonar fjármálastjóra, á kynningarfundi með markaðsaðilum í gær vegna nýbirts ársuppgjörs félagsins.

„Það er auðvitað ljóst að við búum við umhverfi sem er alveg ákaflega sérstakt og okkur mótdrægt. Við höfum ekkert farið í grafgötur með það,“ segir Jón og rifjar upp að Niels Jacobsen, stjórnarformaður Össurar, hafi haldið reiðilestra um stöðuna á aðalfundum félagsins.

„Og þú náttúrlega veist aldrei hvenær þolinmæði þrýtur fyrr en það gerist.“

Sem dæmi um hversu önug staða Össurar væri hér innan hafta benti Jón á skráningu bréfa félagsins í kauphöll bæði hér og í Danmörku.

Þannig sé Össur um það bil þrítugasta stærsta fyrirtækið í dönsku kauphöllinni, en í um fimmtugasta sæti hvað varði söluhreyfingar bréfanna.

Ef tekin séu hlutabréfin sem hér eru skráð í kauphöll, nálægt þriðjungur bréfa félagsins, og söluhreyfingum þeirra bætt við tölurnar í dönsku kauphöllinni, þá væri félagið í þrítugasta sæti þar hvað varðaði seljanleika bréfanna.

„Þarna er ein birtingarmynd þess hversu skrítið það er að vera með hluta af hlutabréfum fyrirtækisins lokuð hér inni í gjaldeyrishöftum,“ segir Jón.

Sveinn Sölvason fjármálastjóri og Jón Sigurðsson forstjóri Össurar á kynningarfundi vegna uppgjörs félagsins í höfuðstöðvum þess í Reykavík í hádeginu í gær.Fréttablaðið/Valli
Þá bendir Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, á að þótt Össur njóti allsherjarundanþágu frá gjaldeyrishöftunum hér og bein áhrif þeirra á daglegan rekstur félagins séu engin, þá sé staðan samt félaginu og hluthöfum þess kostnaðarsöm.

„Fjármögnun er flóknari, girða þarf íslenska móðurfélagið af og við fáum lánin inn í erlend dótturfélög,“ bendir hann. Sú staðreynd að Össur sé að upplagi íslenskt félag kosti peninga. Þótt fyrirtækið hafi náð hagstæðri fjármögnun þá hafi höftin áhrif.

Sveinn bendir á að vegna þess að Össur sé með 30 prósent hlutafjár félagsins skráð í Kauphöllina hér, innan gjaldeyrishafta, þá nýtist sá hluti ekki til fjármögnunar verkefna utan landsteinanna.

„Tækju íslenskir fjárfestar þátt í slíkum gjörningi, þá fengjum við inn krónur sem við getum ekki notað nema við reiðum okkur á einhvers konar undanþágur og í þeim málum er ekkert hægt að gefa sér,“ segir hann.

Jón Sigurðsson bætir við að ef félagið væri á leið inn í stór verkefni og vantaði peninga (sem hann áréttar þó að sé ekki raunin heldur eigi félagið fremur í vandræðum með að koma því fjármagni í vinnu sem það á) þá væri félagið í nákvæmlega sömu stöðu og Promens og yrði að yfirgefa landið.

„Það er ákveðinn efnahagslegur ómöguleiki í því fólginn að vera hér á Íslandi,“ segir Jón, en kveðst þó um leið vonast til þess að félagið verði hér áfram. 

Félagið í hnotskurn

Össur er eitt af stærstu fyrirtækjum landsins, alþjóðlegt fyrirtæki á heilbrigðissviði, sem hannar og framleiðir stoðtæki, spelkur og stuðningsvörur.

Fram kemur á vef félagsins að það sé annar stærsti stoðtækjaframleiðandi í heimi og leiðandi á sínu sviði.

Össur hf. er skráð í kauphöll Nasdaq í Kaupmannahöfn með megnið af sínu hlutafé og í Nasdaq Iceland með um 30 prósent hlutafjár.

Félagið sótti árið 2011 um afskráningu úr kauphöllinni hér, en kauphöllin ákvað að taka hlutabréf félagsins aftur til viðskipta, án samþykkis fyrirtækisins.







Fleiri fréttir

Sjá meira


×