Skoðun

Hróplegt skipulagsleysi

Guðrún Helga Sigurðardóttir skrifar
Kæri Hjálmar Sveinsson.



Í Morgunblaðinu nýlega var haft eftir þér að sautján bílastæði við nýtt hótel sem á að opna við Hlemm eigi að duga starfsmönnum sem vinna við hótelið og því sé ekki ástæða til að þvinga eigendur hótelsins til að byggja bílastæðakjallara enda strætóskiptistöð í næsta nágrenni. Ekki er gott að þvinga nokkurn mann. En það er ýmislegt í þessu sem þú þyrftir að athuga betur og því langar mig til að bjóða þér að verja deginum með mér þannig að þú sjáir við hvaða aðstæður við ökuleiðsögumenn og bílstjórar búum í starfi okkar. Það gæti verið fróðlegt og skemmtilegt fyrir þig.

Til að útskýra aðeins betur: Í næsta nágrenni við Hlemm eru fjöldamörg hótel og gistiheimili; Hlemmur Square, 101 guesthouse og 4th floor hotel á horni Snorrabrautar og Laugavegs. Ofar við Laugaveg eru að minnsta kosti Phoenix hótel og Laugavegur Apartments. Við Rauðarárstíg er Fosshótel Lind. Eru þá bara taldir þeir staðir sem koma upp í hugann í núinu og eru alveg við Hlemm. Fleiri eru í nágrenninu. Nýtt „risahótel“ bætist svo greinilega við á horni Hlemms og Rauðarárstígs innan tíðar.

Ferðamenn kaupa þá þjónustu að vera sóttir eða þeim skilað í næsta nágrenni gististaðar. Það er greinilega markaður fyrir þessa þjónustu og því sjálfsagt að bjóða upp á hana. Ég er ein af þeim fjölmörgu sem sinna þessari þjónustu og ég verð að segja að því miður einkennir hróplegt skipulagsleysi bílastæðamál hótela og gistihúsa úti um alla borg. Hvergi er gert ráð fyrir því að jeppar og rútur, litlar eða stórar, geti stoppað, tekið upp fólk eða skilað fólki. Hvergi! Og í þeim fáu tilvikum þar sem stæði eru fyrir slíka umferð, eru oft fyrir í bæli trukkar í vöruafhendingu og smábílar þegar komið er að.

Kjörið tækifæri

Ástandið er afar slæmt við Hlemm. Í fyrra kom fram að það ætti að laga með því að gefa ferðaþjónustufyrirtækjum pláss á strætóskiptistöðinni á Hlemmi. Ég bíð og vona að það nægi til þess að ástandið verði viðunandi. En þetta er ekki einfalt. Hafa verður í huga að ferðamenn taka oft bíla á leigu og þurfa að geta lagt þeim einhvers staðar. Og gera verður ráð fyrir umferð ferðaþjónustufyrirtækja við hótelin. Ökuleiðsögumenn og bílstjórar verða að geta stoppað fyrir framan gististaði eða í næsta nágrenni þeirra og jafnvel skroppið út til að skoða miða, svara spurningum og taka töskur. Og það gengur ekki inni á miðju bílastæði og þaðan af síður úti á miðri götu þar sem farartækin teppa aðra umferð. Um það erum við örugglega sammála. Og trúðu mér, bílstjórarnir eru brjálaðir yfir að þurfa að bíða meðan rútan teppir umferðina.

En kæri Hjálmar, ástandið er slæmt og því vil ég bjóða þér í smá kynningu á því út á hvað starfið gengur og hvernig staðan er við gististaði í borginni. Með því að vera með mér dag eða dagspart myndirðu kynnast því út á hvað þessi vinna gengur, hvert er farið, hvar hægt er að stoppa og hvar þarf að stoppa, hvernig ástandið er í henni Reykjavík. Ég held að þetta sé kjörið tækifæri fyrir metnaðargjarnan og áhugasaman mann eins og þig til að sjá hvernig búið er að stærstu atvinnugrein þjóðarinnar hvað þetta varðar, hvað þarf nauðsynlega að bæta og hvernig það verður best gert. Og í leiðinni gætirðu sagt mér frá plönunum varðandi strætóskiptistöðina á Hlemmi.

Líttu endilega á þetta sem formlegt boð. Ég hlakka svo til að fá þig með mér í þennan rúnt.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×