Skoðun

Leikskólakennurum fjölgað í Kópavogi

Ármann Kr. Ólafsson skrifar
Dagur leikskólans verður haldinn í áttunda sinn á morgun, föstudaginn 6. febrúar. Af því tilefni er vel við hæfi að benda á jákvæða þróun í leikskólum Kópavogs í kjölfar aðgerða sem gripið var til síðastliðið vor.

Meginmarkmið tillagna sem samþykktar voru í bæjarstjórn Kópavogs síðastliðið vor var að fjölga leikskólakennurum og efla faglegt starf í leikskólum Kópavogs.

Tillögurnar fela einkum í sér þrennt: Að styrkja starfsmenn til náms í leikskólakennarafræðum, að umbuna fyrir störf og verkefni af faglegum toga og loks að kynna og efla ímynd leikskóla Kópavogs. Árangurinn hefur ekki látið á sér standa því í haust hófu 25 starfsmenn nám með vinnu til þess að bæta hæfni sína í starfi með börnum. Þessi mikla þátttaka fór fram úr okkar björtustu vonum og hún er ótvírætt merki um mikinn metnað í leikskólastarfi í Kópavogi.

Í Kópavogi hefur hlutfall leikskólakennara verið um 36%. Það er markmið okkar, sem meðal annars endurspeglast í þessum aðgerðum, að það hlutfall hækki verulega á komandi árum.

Bjartsýn á að markmið náist

Með þessum aðgerðum viljum við laða nýja leikskólakennara til starfa í leikskólum Kópavogs, halda í góða leikskólakennara sem þegar starfa í leikskólunum og ekki síst fjölga nemendum í leikskólakennarafræðum. Miðað við viðbrögðin þá erum við bjartsýn á að þessi markmið muni nást.

Kópavogsbær hefur um nokkurt skeið styrkt starfsmenn sem vilja bæta við sig menntun í leikskólakennarafræðum. Með nýjustu aðgerðum hefur styrkurinn verið hækkaður umtalsvert og starfsmönnum gefið aukið svigrún til þess að stunda námið með vinnu. Þeir sem hljóta styrkinn skuldbinda sig til þess að starfa í ákveðinn tíma í leikskólum bæjarins að námi loknu.

Þá hafa leikskólastjórar nú heimild til þess að ráða sérgreinastjóra sem styrkir faglegt starf í leikskólum enn frekar. Sem dæmi um spennandi verkefni sem sérgreinastjórar hafa leitt eru útinám, skapandi starf, tónlist, jóga og fleira fyrir börn í leikskólum bæjarins.

Með tillögunum er einnig veitt heimild til fjölgunar yfirvinnutíma í leikskólum til greiðslu fyrir stýringu verkefna af faglegum toga svo og fé í þróunarsjóð til styrkingar verkefna í leikskólum. Nú þegar hefur fjármagni verið veitt úr þessum sjóði í áhugavert þróunarverkefni um sjálfbærni og vísindi, sem allir leikskólar bæjarins taka þátt í.

Sú vísa verður ekki of oft kveðin að snemma beygist krókurinn. Hlutverk leikskólanna í velgengni og árangri bæjarins í uppeldis- og menntunarmálum er óumdeilt og við erum stolt af því hversu vel hefur tekist til. Kópavogsbær hefur stigið stórt skref í því að efla og styrkja leikskólastigið.

Með aðgerðunum höfum við eflt faglegt starf leikskólanna og við sjáum fram á að leikskólakennurum í Kópavogi muni fjölga. Þannig hefur Kópavogur lagt sitt af mörkum í samstarfsverkefni Félags leikskólakennara og mennta- og menningarráðuneytis um átak til fjölgunar leikskólakennara.




Skoðun

Sjá meira


×