Innlent

Mál fyrir Hæstarétti hafa aldrei verið fleiri

fanney birna jónsdóttir skrifar
Millidómstig myndi létta álagið á Hæstarétt verulega.
Millidómstig myndi létta álagið á Hæstarétt verulega. vísir
Álagið á Hæstaréttardómurum hefur síður en svo minnkað frá því tekin var ákvörðun um að fækka þeim, eftir að þeim var fjölgað í kjölfar efnahagshrunsins.

Dómurum við Hæstarétt var fjölgað um þrjá árið 2011 og voru þá tólf, en hefur nú aftur verið fækkað niður í níu. Á síðasta ári fjölgaði skráðum málum við Hæstarétt um 36 og var fjöldi þeirra því alls 111 eða 13 prósentum fleiri en meðaltal áranna 2008 til 2013. Skráð ný mál hafa aldrei verið fleiri.

Kærum í einkamálum til Hæstaréttar fjölgaði verulega og voru 96, eða um 33 prósent.

Þá hefur dæmdum málum við réttinn einnig fjölgað, voru í fyrra 764 sem er 10 prósentum fleiri en meðaltal áranna 2008 til 2013. Ódæmd sakamál eru 30 prósentum fleiri en meðaltal áranna 2010 til 2013, eða 74 mál, en fjöldi ódæmdra einkamála í árslok var svipaður og undanfarin ár, eða 133 mál.

Frá því 1. mars í fyrra var dómurum við réttinn fækkað úr tólf í níu, en þeim hafði verið fjölgað vegna fyrirsjáanlegs álags á Hæstarétt.

Boðað hefur verið nýtt frumvarp um millidómstig sem kæmi óhjákvæmilega til með að létta álaginu af Hæstarétti. Í kjölfarið myndi dómurum þar fækka.

Innanríkisráðuneytið skipaði nefnd undir forystu Kristínar Edwald hæstaréttarlögmanns. Aðrir nefndarmenn eru Hafsteinn Þór Hauksson, lektor við Háskóla Íslands, og Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari.

Þessari nefnd var ætlað að koma með tillögu að því hvernig slíku dómstigi yrði komið á laggirnar. Nefndin hefur ekki enn skilað af sér áliti. Nefndin var upphaflega skipuð í ágúst árið 2013 og stefnt var að því að hægt yrði að leggja fram frumvarp byggt á tillögum hennar í mars árið 2014.

Samkvæmt upplýsingum frá innanríkisráðuneytinu er gert ráð fyrir að tillögunni verði skilað í lok þessa mánaðar en eftir það þarf að taka ákvörðun um hvort tillagan fari í umsögn.

Vonast er til þess að hægt verði að leggja fram frumvarp um millidómstig á þessu þingi en fresturinn til að leggja fram frumvörp er til 31. mars.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×