Skoðun

Rétt skal vera rétt

Álfheiður Ingadóttir skrifar
Þessi grein er skrifuð til að mótmæla því opinberlega sem lesa má á vef Borgarskjalasafns Reykjavíkur að faðir minn, Ingi R. Helgason hrl., sé höfundur dagbókar, e.k. njósnaskýrslu um nafngreinda félaga sína í hreyfingu ungra sósíalista og stúdenta, dagbók sem rataði í einkaskjalasafn Bjarna Benediktssonar, fyrrum forsætisráðherra. Jafnframt fer ég fram á að Borgarskjalasafnið birti opinberlega leiðréttingu á þessum aðdróttunum.

Nú keppast hægri menn við að endurskrifa söguna og einstaka gengur jafnvel svo langt að hreykja sér af því að hafa borið fé á menn og skrifað njósnaskýrslur á næturþeli fyrir Bjarna Benediktsson, Morgunblaðið og bandaríska sendiráðið. Ég hef megnustu skömm á slíku hátterni og ég veit fyrir víst að faðir minn var sömu skoðunar. Mér brá því verulega í brún að sjá að á vef Borgarskjalasafns Reykjavíkur er ein slík njósnadagbók úr einkasafni Bjarna Benediktssonar eignuð föður mínum. Þetta er ekki einhver vefur úti í bæ: Borgarskjalasafn er héraðsskjalasafn Reykjavíkur, undir faglegu eftirliti Þjóðskjalasafns, og því ber m.a. að safna og tryggja vörslu gagna „með… varðveislu sögu íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi“. Gögn í vörslu safnsins eru tiltæk til fræðilegra rannsókna.

Dagbók njósnara

Ritari dagbókarinnar fylgist grannt með samferðamönnum sínum um borð í Dronning Alexandrine frá Reykjavík til Kaupmannahafnar 27. júlí til 1. ágúst 1951. Um borð var m.a. 40 manna hópur félaga úr Æskulýðsfylkingunni, Iðnnemasambandi Íslands og Félagi róttækra stúdenta, á leið til Berlínar á heimsleika og heimsmót æskunnar sem þar var haldið. Í dagbókinni lýsir njósnarinn því hvernig hann kemur sér inn undir hjá mönnum eins og Ólafi Jenssyni, Magnúsi Kjartanssyni, Eiði Bergmann, Gísla Ásmundssyni, Högna Ísleifssyni, Jóni Norðdahl, Láru Helgadóttur – svo nokkur nöfn séu nefnd – en allt voru þetta vinir og félagar föður míns til margra ára.

Ritarinn gægist í farangur samferðamanna sinna, kemur auga á merki með mynd Jóns Sigurðssonar í skjalatösku Jóns Norðdahl, skráir niður hvað Ólafur og Högni eru að lesa, að Magnús hittir „kommúnistann“ Erlend Patursson í Þórshöfn og tíundar að hópurinn sé að æfa Bí, bí og blaka og Ríðum ríðum. Honum þykir miður að heyra ekki orðaskil þegar þeir Magnús, Ólafur, Gísli og Högni spjalla saman á næsta borði. Hann gumar af því að hafa áunnið sér trúnað hópsins, segist kominn „allvel inní klíkuna“ og spyr húsbóndann eftir hverju hann eigi sérstaklega að slægjast, gott væri að fá „tipp“ þar um.

Bréfið um Huseby

Á sömu vefslóð Borgarskjalasafns er að finna bréf frá föður mínum til fararstjóra íslensku frjálsíþróttamannanna sem fóru til keppni á leikunum í Berlín. Í bréfinu, sem er ritað á hans ritvél, með hans vandaða orðafari og venjubundinni undirskrift, lýsir faðir minn áhyggjum af fréttaflutningi Alþýðublaðsins um Gunnar Huseby sem þá var Evrópumeistari í kúluvarpi og segist treysta fararstjóranum og Finnbirni Þorvaldssyni frjálsíþróttamanni til að gæta þess að Huseby misstigi sig ekki í þessari ferð; hann eigi mannorð sitt undir því að hann fái góða keppni og lendi ekki á fylleríi. Er þar vísað til þess að Gunnar sem átti við áfengisvanda að stríða varð sjálfum sér og löndum sínum til minnkunar eftir keppni í London fyrr á þessu sama sumri. Til stóð að banna Huseby að keppa á erlendri grund en stjórn Frjálsíþróttasambandsins felldi þá tillögu með þeim afleiðingum m.a. að formaðurinn sagði af sér. Er greinilegt að faðir minn bar hag Gunnars Husebys fyrir brjósti eins og reyndar flestir landsmenn, en hann var einn mesti og ástsælasti íþróttamaður landsins á þessum tíma. Bréfið skrifaði faðir minn á 27 ára afmælisdegi sínum, sama dag og Drottningin kom til Færeyja, og sendi það til Kaupmannahafnar, líklega með þeim Finnbirni og Gunnari, sem flugu til Hafnar og sameinuðust Berlínarförum þar.

Það er með ólíkindum

Ekki veit ég hvernig þetta bréf föður míns til nafngreinds manns komst í hendur Bjarna Benediktssonar, en hitt er algerlega óskiljanlegt hvers vegna það er tengt á vef Borgarskjalasafnsins við dagbók njósnarans í Drottningunni.

Einfaldur samanburður á ritvélum, rithætti og málfari hefði dugað hvaða skjalaverði sem er til að sjá að hér er ekki um sama bréfritara að ræða. En vefjist það samt fyrir einhverjum má á upphafsorðum dagbókarinnar sjálfrar sjá að faðir minn skrifaði hana ekki – því þar segir frá því að á bryggjunni í Reykjavík hafi „nokkrir kommúnistar“ kvatt ferðalangana, „einsog Ingi R. Helgason, Helga Rafnsdóttir og Jón Múli“.

Það er með ólíkindum ef Borgarskjalasafn Reykjavíkur tekur það sem að því er rétt og birtir opinberlega án athugunar, og ber upp á föður minn látinn að hann hafi lagst í ferðalag til að njósna um félaga sína og senda helsta pólitíska andstæðingi sínum og þeirra skýrslu þar um. Slíkt er í mínum huga alvarlegur áburður og upploginn en – gæti sannarlega nýst einhverjum hægri þursinum við endurskrift sögunnar, væri honum ekki mótmælt.

Um þetta tímabil í sögu pólitískra átaka á Íslandi mætti hafa mörg orð. Faðir minn var í fararbroddi sósíalista og í framvarðasveit Alþýðubandalagsins um árabil. Hann fór ekki frekar en aðrir vinstri menn varhluta af árásum Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins. Og fráleitt er að halda því fram að hann hefði valið sér einmitt þann miðil til viðtals um ævi sína og stjórnmálalíf. Atburðir undanfarinna daga og missera sýna hins vegar að það dugir ekki að láta hægri menn í friði við að ljúga upp á lifandi menn og látna. Og allra síst ef opinberar stofnanir eru látnar taka á sig ábyrgð á óhróðrinum eins og hér er gert.




Skoðun

Sjá meira


×