Skoðun

Vinnum saman að eflingu heilbrigðiskerfisins

Ólafur G. Skúlason skrifar
Þann 8. janúar síðastliðinn var undirrituð afar mikilvæg viljayfirlýsing. Þrír ráðherrar ríkisstjórnarinnar og forsvarsmenn læknafélaga sammæltust þar um að hefja þyrfti uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu, það þyrfti að gera það sambærilegt við heilbrigðiskerfi annarra norrænna ríkja bæði hvað varðar fjármuni og starfsmenn. Þar er jafnframt rætt um betri nýtingu fjármagns, mikilvægi byggingar nýs Landspítala og aukinnar samvinnu milli heilbrigðisstofnana auk annarra þátta.

Ég fagna þessari yfirlýsingu og vona að hún verði til þess að raunverulega verði farið að byggja upp heilbrigðisþjónustuna þannig að hún verði aftur á heimsmælikvarða bæði hvað varðar þjónustu við sjúklinga, minni þátttöku sjúklinga í kostnaði og bætta starfsaðstöðu fyrir heilbrigðisstarfsfólk.

Ég vil þó fjalla um eitt er varðar þáttinn um stefnumótun í heilbrigðiskerfinu en í umræddri viljayfirlýsingu er talað um virka þátttöku lækna í stefnumótun stjórnvalda. Þátttöku heilbrigðisstétta í stefnumótun ber að fagna. Hins vegar má ekki gleymast að heilbrigðiskerfið er samsett af mörgum fagstéttum sem hver um sig kemur með ákveðna þekkingu og færni að borðinu. Ef ráðast skal í stefnumótun sem stuðlar að auknum árangri í heilbrigðisþjónustu og bættri nýtingu fjármuna er grundvallaratriði að sjónarmið allra komi fram. Skoða þarf heilbrigðiskerfið á breiðum grundvelli þar sem hagsmunir einnar stéttar eru ekki hafðir að leiðarljósi. Skjólstæðingar kerfisins eiga alltaf að vera í fyrsta sæti og slíkt næst ekki fram nema með víðtæku samráði allra heilbrigðisstétta og stjórnvalda. Endurskilgreining á hlutverkum heilbrigðisstétta ætti að vera hluti af þessari stefnumótun og sú vinna verður að fara fram í góðu og markvissu samstarfi allra stétta.

Þjóðin öll krefst öflugrar heilbrigðisþjónustu. Hagsmunir einstakra hópa verða að víkja með það að leiðarljósi að hér náist markmið okkar allra um fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu til lengri tíma. Langtímastefnumótun í heilbrigðismálum er það sem þarf hér á landi. Við hjúkrunarfræðingar eru tilbúnir í þá vinnu og bjóðum hér með fram þjónustu okkar í þeim efnum.




Skoðun

Sjá meira


×