Skoðun

Villandi málflutningur Íbúðalánasjóðs

Gunnlaugur Kristinsson skrifar
Þann 5. janúar síðastliðinn fór fram málflutningur í máli lántaka gegn Íbúðalánasjóði (ÍLS) þar sem reynir á það hvort ÍLS hafi verið heimilt að innheimta kostnað af láni sem stefnendur tóku hjá sjóðnum.

Í máli lögmanns ÍLS kom fram að síðasta breyting á vísitölu neysluverðs fyrir lántöku hefði einungis verið 0,1% og það væri svo lítil breyting að engu skipti þó að ekki hefði verið upplýst um hvaða áhrif sú verðbólga hefði á skuldbindingu að fjárhæð kr. 9.000.000.- til 40 ára. En er það í raun svo að 0,1% mánaðarleg verðbólga hafi hverfandi áhrif á skuldbindingu til 40 ára? Lítum aðeins á niðurstöður útreikninga úr lánareiknivél eins bankanna og reiknum með að vextir séu 5,1% eins og í umræddu máli.

Miðað við að lántökugjald sé 1% og verðbólguforsendur séu 0% er útborguð fjárhæð kr. 8.907.200.- og árleg hlutfallstala kostnaðar 5,34%. Heildarfjárhæð til greiðslu reiknast vera kr. 21.202.504.- og kostnaðurinn við lántökuna samtals kr. 12.295.304.-

Þegar verðbólguforsendur eru miðaðar við 0,1% mánaðarlega verðbólgu kemur í ljós að árleg verðbólga er rúmlega 1,2% (1,001 í tólfta veldi) og þegar verðbólguforsendum er breytt úr 0% í 1,2% ársverðbólgu verður niðurstaðan sú að heildarfjárhæð til greiðslu verður kr. 27.192.742.- sem þýðir að heildarkostnaður við lántökuna verður kr. 18.192.742.- og árleg hlutfallstala kostnaðar 6,60%.

Það kemur því í ljós þegar forsendurnar eru metnar á þennan hátt að kostnaður við þessa lántöku er 48% hærri miðað við 1,2% ársverðbólgu en hann væri ef miðað er við 0% verðbólgu. Jafnframt er þessi kostnaðarviðbót að fjárhæð kr. 5.897.438.- „einungis“ 65,5% af upphaflegri lánsfjárhæð.

Umtalsverður munur

Það er vel skiljanlegt að lögmaður Íbúðalánasjóðs hafi ekki stutt framangreinda yfirlýsingu sína um að engu skipti hvort upplýsingar væru gefnar miðað við 0% eða 0,1% mánaðarverðbólgu neinum tölum eða gögnum. Hér að framan hefur verið sýnt fram á að umtalsverður munur er á þróun skuldbindingarinnar og heildarkostnaði við hana eftir því við hvora verðbólguforsenduna er miðað, svo ekki sé nú minnst á ef verðbólga væri hærri en í þessu dæmi sem hér að framan er rakið.

Það má vel vera að ÍLS finnist tæplega 50% munur á heildarkostnaði við lán ekki vera neitt til að kippa sér upp við, en það er mín tilfinning að meginþorra almennings finnist þessi munur vera umtalsverður.

„Varðhundar verðtryggingarinnar“ munu sjálfsagt finna framangreindu allt til foráttu og benda á að stærsti hluti heildarkostnaðar verði greiddur svo langt í framtíðinni að þær krónur sem þá greiðast hafi allt annað verðgildi en nú er. Það kann vel að vera en í því samhengi er rétt að benda á að slíkt á við hvort heldur sem verðbólga er reiknuð inn sem hluti lántökukostnaðar eða ekki.

Hins vegar kemur það undarlega fyrir sjónir nú þegar verðbólga er lág og stýrivextir lækkaðir að fjármálastofnanir fylgja ekki með og auka því sinn vaxtamun svo um munar. Undirritaður getur ekki túlkað slíkt með öðrum hætti en að verðtryggingin sé eitthvað annað og meira í hendi fjármálastofnana en verðleiðrétting. Þannig sé verðtryggingin að hluta í reynd viðbótartekjur fyrir þær sem þær reiði sig á og þar með raunverulegur dulinn viðbótarlántökukostnaður sem nauðsynlegt sé að gera lántaka grein fyrir við lántöku sama hversu verðbólga er lág.




Skoðun

Sjá meira


×