Skoðun

Ofurnæm ríkisstjórn

Sverrir Björnsson skrifar
Merkilegt hvað ríkisstjórnin er næm á þarfir stóreignafólks en hefur lítinn sans fyrir lífi þeirra sem munar um 200 kr. af hverri matarkörfu og 1.500 kr. á mann fyrir leyfi til að njóta náttúru landsins. Ríkisstjórnin fælist frá að leggja skatta á atvinnugreinar sem búa við velsæld vegna gengisfalls krónunnar og lækkandi olíuverðs en finnst ekkert mál að skutla alls kyns sköttum á almenning.

Náttúruskattinn á að sjálfsögðu ekki að leggja á Íslendinga, þeir eru búnir að borga malbikið, brýrnar og umferðarmerkin allan hringinn. Gistináttagjald er ágæt leið, því ekki gista auralitlir Íslendingar á hótelum. Einfaldara væri þó að setja skattinn á þær leiðir sem útlendingar nota til að fara um landið. Þeir ganga ekki Gullna hringinn eða að Dettifossi. Þeir nota þrjár leiðir; kaupa sig inn í hópferð, leigja sér bíl eða koma með farartæki til landsins. Allt leiðir sem Íslendingar nota afar sjaldan.

Miðað við veltutölur myndi hóflegur náttúruskattur á bílaleigur, skipulagðar hópferðir og farartæki sem koma með Norrænu afla þessa eina og hálfa milljarðs sem náttúrupassinn á að koma í hús. Það þarf ekki að gera sér vonir um að þessi einfalda leið verði farin, til þess er ríkisstjórnin of næm á hagsmuni öflugra fyrirtækja og ættingjar fjármálaráðherra eiga hagsmuna að gæta í tveimur af stærstu hópferðafyrirtækjum landsins.




Skoðun

Sjá meira


×