Viðskipti innlent

Opna næstu F&F-verslun í mars

Jón Hákon Halldórsson skrifar
fyrir opnun. Emma Goodman, rekstrarstjóri F&F í Evrópu, Gunnar Ingi Sigurðsson og Olga Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri F&F, höfðu í nógu að snúast áður en verslunin var opnuð í Kringlunni.
fyrir opnun. Emma Goodman, rekstrarstjóri F&F í Evrópu, Gunnar Ingi Sigurðsson og Olga Gunnarsdóttir, rekstrarstjóri F&F, höfðu í nógu að snúast áður en verslunin var opnuð í Kringlunni. fréttablaðið/vilhelm
Hagkaup mun opna fleiri F&F-verslanir á þessu ári. Fyrsta slíka verslunin var opnuð á 2. hæð í Hagkaupi í Kringlunni í nóvember og voru viðtökurnar góðar. Þetta segir í árshlutauppgjöri Haga fyrir tímabilið 1. mars til 30. nóvember.

Hagar reka sem kunnugt er Bónus og Hagkaup en jafnframt nokkrar sérvöruverslanir.

Áætlað er að næsta F&F-verslun verði opnuð í Hagkaupi í Garðabæ í mars. Þá mun ný Bónusverslun verða opnuð í tæplega 1.000 fermetra húsnæði í Skipholti 11-13 á árinu.

Í uppgjörinu kemur fram að hagnaður Haga hf. frá 1. mars til loka nóvember í fyrra nemur um 2,85 milljörðum króna, eða um fimm prósentum af veltu. Hagnaðurinn var 2,77 milljarðar á sama tímabili árið áður. Vörusala tímabilsins nam 56,8 milljörðum króna og framlegð tímabilsins var 24,1%. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4,2 milljörðum króna.

Heildareignir samstæðunnar námu 27,5 milljörðum króna í lok nóvember og eigið fé 13,77 milljörðum króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×