Viðskipti innlent

Tilkynnt var um níu hópuppsagnir í fyrra

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Af þeim sem misstu vinnuna í hópuppsögnum á nýliðnu ári unnu flestir í fiski og næstflestir í fjármálageiranum.
Af þeim sem misstu vinnuna í hópuppsögnum á nýliðnu ári unnu flestir í fiski og næstflestir í fjármálageiranum. Fréttablaðið/Egill Aðalsteinsson
Fjöldi þeirra sem misstu vinnuna í hópuppsögnum dróst saman um 35,7 prósent milli áranna 2013 og 2014. Alls misstu í fyrra 202 vinnuna í níu hópuppsögnum sem tilkynnt var um, að því er fram kemur í nýbirtum tölum Vinnumálastofnunar.

Síðustu ár hefur dregið mjög úr hópuppsögnum eftir hrinu slíkra uppsagna eftir hrun, á árunum 2008 og 2009. Þannig var 25 sinnum fleira fólki sagt upp vinnunni í hópuppsögnum árið 2008 en gerðist á síðasta ári og árið 2009 voru það tæplega níu sinnum fleiri sem misstu vinnuna með þeim hætti.

Fram kemur í gögnum Vinnumálastofnunar að frá og með árinu 2008 hafi alls 9.157 manns verið sagt upp í hópuppsögnum, en þrír fjórðu þeirra misstu vinnuna 2008 og 2009, flestir á þriggja mánaða tímabili frá desember 2008 til febrúar 2009 og svo næstu þrjá mánuði þar á eftir.

Vinnumálastofnun segir eina tilkynningu hafa borist um hópuppsögn í desember 2014 þar sem sagt var upp 21 starfsmanni í fiskvinnslu.

Í hópuppsögnum nýliðins árs eru flestir sagðir hafa misst vinnuna í fiskvinnslu, 52 talsins, eða um 26 prósent allra hópuppsagna. Þar á eftir koma uppsagnir í fjármála- og tryggingaþjónustu sem snertu 50 manns, eða 25 prósent.

„Alls komu 279 hópuppsagnir til framkvæmda á árinu 2014, um 107 úr tilkynningum sem bárust á árinu 2014 en um 172 úr tilkynningum sem bárust á árinu 2013,“ segir jafnframt í samantekt Vinnumálastofnunar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×