Skoðun

Árlega hendum við tæpum 60 tonnum af mat

Skúli Skúlason skrifar
Það var í eina tíð að mæður okkar lögðu áherslu á að við kláruðum alltaf allan matinn af diskinum. Nú er önnur tíð. Í dag leggjum við áherslu á hófsemi í mat og drykk. Við reynum að matreiða hæfilegt magn matar fyrir fjölskyldumeðlimi og að hver og einn fái sér hæfilegan skammt á diskinn. Allt í senn reynum við meðvitað og ómeðvitað að stunda hagkvæm matarinnkaup, heilbrigði með því að temja okkur hófsamlegt mataræði og síðast en ekki síst að lágmarka sóun matvæla sem er því miður gríðarleg á heimsvísu.

Umræða dagsins í dag fjallar ekki bara um það hversu ósiðlegt það er að fleygja mat, í heimi þar sem 868 milljónir manna svelta, heldur líka um þann kostnað sem verður til við förgun matar og þau neikvæðu umhverfisáhrif sem sóunin veldur. Því miður er þetta eitt af stærri viðfangsefnum alþjóðasamfélagsins og í því sambandi getum við sem upplýstir neytendur ekki látið hjá líða að taka þátt í þeirri baráttu sem sóun matvæla veldur í allri virðiskeðjunni; uppskeru, meðferð, pökkun, vinnslu, dreifingu og neyslu.

Ískyggileg þróun

Þróunin er ískyggileg. Sem dæmi má nefna að árið 2025 er áætlað að 30% jarðarbúa muni búa við vatnsskort. Á sama tíma er áætlað að 80% af vatnsforða jarðar verði nýtt til landbúnaðar, þar sem matvæli heimsins verða til. Alþjóðamatvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, áætlar að árlega séu 1,3 milljörðum tonna af matvælum sóað, eða þriðjungi allrar matvælaframleiðslu til manneldis. Orsakir þessarar sóunar eru margþættar og jafnframt breytilegar milli heimsálfa. Í þróunarlöndunum er talið að mesta sóunin eigi sér stað í frumframleiðslu matvæla vegna ófullkomins tækjabúnaðar, ófullnægjandi geymsluaðferða og vanþróaðs flutningakerfis. Í iðnríkjunum er ástæðurnar hins vegar að finna í enda virðiskeðjunnar, það er í veitingaþjónustu og almennri matvælaneyslu mannfjöldans. Þá fléttast einnig inn alls kyns nútímavandamál, svo sem kröfur um staðlaðar stærðir, útlit og merkingar. Áætlað er að matvæli sem fargað er með urðun á Vesturlöndum séu allt að 222 milljónir tonna. Það jafngildir því matvælaframboði sem nú er í löndum sunnanverðrar Afríku.

Sóun sagt stríð á hendur

Samvinnuverslanakeðjan Coop í Evrópu hefur sagt þessari sóun stríð á hendur og hafið herferð með fræðslu og samfélagslega ábyrgð að vopni. Félagsmenn, sem jafnframt eru eigendur samvinnufyrirtækja, eru um 30 milljónir talsins í Evrópu. Fyrirtæki samvinnuhreyfingarinnar eru nú að hefja kerfisbundna vinnu með félagsmönnum sínum til að bæta meðferð matvæla með fræðslu um aukna umhverfisvitund og hnitmiðuðum skilaboðum. Nálgun okkar hér á Íslandi ætti að vera sú sama, að auka fræðslu um þau verðmæti sem við sóum með förgun matvæla. Hagstofa Evrópusambandsins, EUROSTAT, áætlaði árið 2006 að á hverju ári henti hver einstaklingur í Evrópulöndunum um 180 kílóum af mat. Samkvæmt því hendum við Íslendingar tæpum 60 tonnum af mat á ári. Við höfum svo sannarlega verk að vinna.




Skoðun

Sjá meira


×