Viðskipti innlent

Hlutabréfaviðskipti jukust um 16% milli ára

Haraldur Guðmundsson skrifar
Í lok árs voru hlutabréf sautján fyrirtækja skráð á markað hér á landi.
Í lok árs voru hlutabréf sautján fyrirtækja skráð á markað hér á landi. Vísir/Daníel
Heildarviðskipti með hlutabréf á síðasta ári námu 292 milljörðum króna samanborið við 251 milljarðs veltu árið 2013. Veltan jókst því um sextán prósent milli ára.

Mest voru viðskipti með bréf Icelandair Group. Samkvæmt nýbirtu viðskiptayfirliti Kauphallarinnar (Nasdaq Iceland) námu viðskipti með bréf fyrirtækisins 71,9 milljörðum króna en þar á eftir komu Marel með 32,6 milljarða og Hagar með 31,6 milljarða. Verð bréfa stoðtækjaframleiðandans Össurar hækkaði mest á árinu, um 58 prósent, og bréf HB Granda fóru upp um 54 prósent.

Markaðsvirði skráðra hlutabréfa var í árslok 680 milljarðar. Það var sautján prósentum hærra en árið 2013 en á árinu 2014 voru fyrirtækin Sjóvá og HB Grandi nýskráð á Aðalmarkað Kauphallarinnar. Arion banki var með mestu hlutdeildina í viðskiptum á Aðalmarkaðinum eða 26,8 prósent. Íslandsbanki kom þar á eftir með 21,6 prósent og Landsbankinn 19,9 prósent.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu 1.533 milljörðum á árinu. Það samsvarar 6,6 milljarða veltu á dag, samanborið við 7,4 milljarða veltu á dag árið 2013. Í lok árs var verðmæti skráðra skuldabréfa um 2.009 milljarðar króna.

„Á árinu hækkuðu allar skuldabréfavísitölur Kauphallarinnar. Mest hækkaði tíu ára óverðtryggða vísitala, eða um 13,5 prósent,“ segir í yfirlitinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×