Skoðun

Landlæknir Bandaríkjanna

Birgir Guðjónsson skrifar
Sunnudaginn 28. desember sl. var í Sprengisandi á Bylgjunni sagt frá því með nokkurri hrifningu að nýskipaður 36 ára gamall landlæknir Bandaríkjanna „Surgeon General“ væri frá Harvard-háskóla.

Við Yalies (Yale-nemendur/kennarar) erum ekki að öllu leyti sáttir við þessa yfirlýsingu.

Vivek Murthy er 37 ára, hann hlaut læknismenntum sína í Yale-læknaskólanum og MBA í heilbrigðisstjórnun (Health Care Management) í Yale School of Management sem hann lauk árið 2003.

Saga Viveks H. Murthy er ameríski draumurinn í hnotskurn. Hann fæddist í Englandi, sonur indverskra hjóna. Þau fluttu til Florida þegar hann var þriggja ára, þar gekk hann í gagnfræðaskóla (high school). Útskrifaðist síðan frá Harvard College sem lýsa má sem tveimur síðari árum í íslenskum menntaskóla og fyrstu tveimur í háskóla með heiðri (magna cum laude) í lífefnafræði (biochemical science).

Síðan fór hann sem fyrr segir í nám í læknisfræði við Yale.

Hann fór eftir það í sérnám í lyflæknisfræði við Harvard-háskólasjúkrahús og lauk sérfræðiprófi og varð Instructor við Harvard Medical School. Vivek Murthy er því með afburða menntun frá tveimur af fremstu háskólum Bandaríkjanna.

Afrek hans eru sérstaklega hans eigið frumkvæði að nota læknis- og stjórnunarmenntun sína til áhrifa í lýðheilsumálum. Þetta verður til þess að hann er valinn sem æðsti maður í heilbrigðismálum Bandaríkjanna, ekki vegna ætternis, kunningsskapar eða stjórnmálatengsla.

Ekki verður hjá því komist að bera framgang hans saman við íslenska heilbrigðis- og menntakerfið þar sem stjórnmálatengsl, ætterni og kunningsskapur hafa oft á tíðum verið ráðandi í stöðuveitingum. Stöðunefndir hafa með blessun Hæstaréttar getað að vild skáldað verðleika (merita) og hafnað eða hagrætt staðreyndum án nokkurra möguleika á áfrýjun eins og gerist hjá siðmenntuðum þjóðum.

Tvö tilfelli a.m.k. mætti nefna þar sem íslenskum læknum sem hafa numið og einnig kennt við Harvard- og Yale-læknaskólana var hafnað á mjög neikvæðan hátt þegar þeir sóttu um stöður til kennslu og starfa. Annar þeirra hefur síðan leyst prófessor sinn af tvisvar með og fengið áframhaldandi atvinnutilboð. Skaðinn fyrir þjóðfélagið í þessum tilfellum, sem og brotthvarf lækna, er ekki aðeins vannýting á þekkingu og dýrmætri reynslu heldur einnig tap á tengslum við fremstu stofnanir í læknisfræði.

Við Yalies erum stoltir af okkar manni.




Skoðun

Sjá meira


×