KR-ingurinn Helgi Már Magnússon hefur hitt frábærlega úr þriggja stiga skotum sínum í úrslitakeppninni og það fór ekki framhjá mönnum að Njarðvíkingar ætluðu ekki að gefa honum opið skot í síðasta leik.
KR-ingar mæta í Ljónagryfjuna í Njarðvík í kvöld og komast með sigri í úrslitaeinvígið um Íslandsmeistaratitillinn.
Helgi Már hefur skorað 18,7 stig að meðaltali í leik í úrslitakeppninni en hann var með 14,4 stig að meðaltali í leik í deildinni.
Helgi hefur hitt úr 20 af 32 þriggja stiga skotum sínum í fyrstu sex leikjum KR-inga í úrslitakeppninni í ár sem gerir 3,3 þrista að meðaltali og 62,5 prósent skotnýtingu fyrir utan þriggja stiga línuna.
Helgi Már er með langbestu þriggja stiga nýtinguna í úrslitakeppninni en hann hefur nýtt skotin sín fjórtán prósent betur en næsti maður á lista sem er Þórsarinn Darrin Govens.
Það sem er enn athyglisverðara við þessa frábæri þriggja stiga nýtingu kappans er að Helgi er búinn að vera með 50 prósent eða betri þriggja stiga nýtingu í öllum leikjunum sex.
Fjórði leikur KR og Njarðvíkur fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík í kvöld og hefst klukkan 19.15 en hann verður í beinni á Stöð 2 Sport 3.
Helgi Már Magnússon og þriggja stiga skotnýting hans í úrslitakeppninni 2015:
Leikur 1 á móti Grindavík
Hitti úr 3 af 6
50 prósent
Leikur 2 á móti Grindavík
Hitti úr 2 af 2
100 prósent
Leikur 3 á móti Grindavík
Hitti úr 6 af 7
87 prósent
Leikur 1 á móti Njarðvík
Hitti úr 3 af 6
50 prósent
Leikur 2 á móti Njarðvík
Hitti úr 4 af 7
57 prósent
Leikur 3 á móti Njarðvík
Hitti úr 2 af 4
50 prósent
