Viðskipti innlent

„Stjórnvöld hafa ekki lært næstum því nógu mikið af hruninu“

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor segir ljóst að gífurleg þensla blasi við í íslensku efnahagslífi.
Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor segir ljóst að gífurleg þensla blasi við í íslensku efnahagslífi. Vísir/GVA
Hagfræðiprófessor segir ljóst að gífurleg þensla blasi við í íslensku efnahagslífi. Mælar séu farnir að titra á svipaðan hátt og fyrir hrun en munurinn sé hins vegar sá að bankarnir hafi ekki jafn greiðan aðgang að erlendu lánsfé. Stjórnvöld hafi ekki lært nógu mikið af hruninu.

Í þættinum Sprengisandi í morgun sagði Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor að myndin sem blasi nú við í íslensku efnahagslífi sé blönduð. Verðbólgan sé á leiðinni upp og vegna þess að verðtryggingarmálin séu óbreytt blasi við að höfuðstólar húsnæðislána byrji að hækka aftur. Þá sé mikil þensla á vinnumarkaði.

„Það sárvantar vinnuafl, til dæmis í byggingariðnaðinn,“ sagði Þorvaldur. „Byggingakranarnir eru orðnir æði margir og þá rifjast upp kranakenningin um kreppur. En það sem hefur breyst er það að bankarnir eiga ekki lengur sama aðgang að erlendum viðskiptavinum og lánsfé. Því útlendingar láta ekki skaðbrenna sig tvisvar með skömmu millibili.“

Ef allt fari á versta veg, verði fórnarlömbin því nær eingöngu Íslendingar, en ekki erlendir einstaklingar eins og gerðist í hruninu. Segir Þorvaldur að sú verðhjöðnun sem nú er í landinu sé tímabundið vísitölumál. Ríkisstjórnin þurfi að ganga hægar um gleðinnar dyr.

„Opinberar spár gera ráð fyrir aukinni verðbólgu á næsta ári og þarnæsta. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, sem fylgist vel með, varar við þessu og bendir einnig á að skuldir þjóðarbúsins og ríkisins við útlönd hafa lækkað miklu hraðar en til stóð og það er hluti skýringarinnar á því hvers vegna hjólin í efnahagslífinu eru farin að snúast þetta hratt.

Og það er auðvitað fagnaðarefni, svo lengi sem menn missa ekki tök á þróuninni eins og menn hafa næstum alltaf gert áður. Vandinn er sá að stjórnvöld hafa bara ekki lært næstum því nógu mikið af hruninu. Sum þeirra halda meira að segja áfram að tala um hið svokallaða hrun.“


Tengdar fréttir

Þenslumerki gera vart við sig

Hratt dregur úr atvinnuleysi og erlent vinnuafl hefur margfaldast frá hruni. Brottflutningur menntaðs íslensks vinnuafls eykst einnig. Búist er við að atvinnuleysi minnki áfram næstu ár.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×