Radiant Games gaf út leikinn Box Island á Íslandi fyrr í haust. Leikurinn er ætlaður krökkum og er það markmið hans að auðvelda þeim að læra og skilja forritun auk þess sem hann á að efla rökfræðilegan hugsunarhátt. Útgáfan sem nú er komin út er hluti af Hour of Code sem samtökin Code.org standa að og mun leikurinn nú vera gefin út á heimsvísu.
Sjá einnig: Markmiðið að gera besta leikinn á heimsvísu sem kynnir forritun fyrir krökkum
Margir af helstu tæknifrumkvöðlum heims á borð við Bill Gates og Mark Zuckerberg koma að samtökunum. Markmið þeirra er að breiða út boðskap og mikilvægi tölvunarfræði og forritunar á heimsvísu og með Hour of Code framtakinu er ætlað að sýna krökkum fram á að auðvelt sé að læra forritun.
Sjá einnig: Sækja á heimsmarkað
Leikurinn Box Island gerist á ævintýraeyjunni Box Island þar sem spilarar fylgja aðalsöguhetjunni Hero. „Krakkar þurfa að beita grunngildum forritunar og forrita hvaða leið Hero þarf að fara til að komast áfram,“ sagði Vignir Örn Guðmundsson, framkvæmdastjóri Radiant Games, í samtali við Vísi.
Fyrirtækið stefnir að því að gefa út aðalútgáfu Box Island í upphafi desembe-rmánaðar. Nefnist hann Box Island: Epic Coding Adventure. Í samtali við Vísi fyrr á árinu sagði Vignir að fyrirtækið ætli sér að búa til besta leikinn á heimsvísu sem kynnir grunngildi forritunar fyrir krökkum.
Eins og sjá má á meðfylgjandi mynd eru viðburðir á vegum Hour of Code á dagskrá um allan heim.
