Skoðun

Spillt stjórnsýsla, Grímseyingar og rót vandans

Þórarinn Lárusson skrifar
Jón Ólafsson og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir (hér á eftir J & S) rituðu á margan hátt frábæra grein í Fréttablaðið 24. febrúar s.l. undir fyrirsögninni „Spillingin sem læðist.” - Lítum fyrst á tilvitnun í eftirfarandi texta framarlega í grein þeirra:

„Spilling er eins konar tæring í samfélagsgerðinni. Hún grefur undan trausti á stjórnmálum og stofnunum samfélagsins. M.ö.o. spilling skapar vandamál sem ekkert samfélag hefur efni á að leiða hjá sér. Til að takast á við þau þarf að beina skipulögðum aðgerðum að rótum vandans. En hverjar eru rætur spillingar?”

Í eftirfarandi umfjöllun er reynt að bæta við svar þeirra J & S, til að ná betur fyrir rætur spillingarinnar, sem felst aðallega í að hlúa að rótum lýðræðislegrar stjórnsýslu á svo byltingakenndan hátt að rætur spillingarinnar hreinlega veslast upp og útrýmast, eins og hvert annað illgresi. Svarið verður þó að eiga sér nokkurn aðdraganda.

Dæmi um innlenda spillingu

Fyrst að innlendri spillingu. Tökum Grímseyarmálið, sem dæmi, þar sem allt virðist stefna í að kvótalöggjöfin sé að leggja hina fornu búsetu og einn verðugasta útvörð byggðar á Íslandi í eyði.

Grímseyjarmálið á rætur í stórkostlegu óréttlæti, - hreinni siðspillingu, sem  jaðrar við hryðjuverk, jafnvel þótt hægt sé að verja ástandið með undarlegri lagasetningu og vafalaust her yfirborgaðra lögfræðinga þeirra afla sér til varnar ef með þarf.  Tilurð þessara óskapa getur jafnvel átt rætur að rekja til spilltra lagasmiða og flokksagasamþykkta á alþingi eftir leyndaraðkomu og þrýsting (nánast valdboð) hagsmunaaðila í sjávarútvegi, þar sem raunverulegir eigendur útgerðarinnar og þar með kvótans að stórum hluta, eins og  og banka, lífeyrissjóða og annarra fjármálafla, stýra málum og gæta eigna sinna, að því er virðist, af algjöru miskunnarleysi. Sér er nú hver þjóðareignin…

Ömulegra er þó að Grímseyjardæmið virðist ekki ætla að raska ró  þjóðarsálarinnar að ráði, hvað þá kjörinna fullrtúa á alþingi, jafnvel ekki í kjördæmi eyjarskeggja. Að öllu eðlilegu ætti allt að vera orðið vitlaust yfir þessari stöðu, en spillingin, eins og önnur synd, er lævís og lipur. Hvar skyldi valdstjórninni þóknast að bera niður næst, fyrst þetta ætlar að ganga svona vel?

Grímeyjarmálið er að sjálfsögðu bara eitt svona mál af mörgum, eins og allir sjá og vita, sem minnsta gaum gefa landsmálum. Auk þess fer víðs fjarri að spilling sé eingöngu bundin við sjávarútveg. Af nógu öðru er að taka á öllum sviðum þjóðlífsins, sem ekki fer varhluta af spillingaröflunum, án þess að það verði frekar tíundað hér.

Er stjórnsýsla að færast frá ríkisvaldi yfir í kerfi markaðshagsmuna?

Í þessu ljósi er fróðlegt að gaumgæfa eftirfarandi málsgrein í grein þeirra Jóns og Sigurbjargar:

„Vandinn við þrönga skilgreiningu spillingar er að með henni er horft fram hjá þeirri staðreynd að stjórnsýsla vestrænna ríkja hefur á undanförnum 20-30 árum verið að umbreytast og færast frá miðstýrðu valdi ríkisins yfir í dreifstýrt kerfi markaðshagsmuna [leturbr. höf.]. Þetta umhverfi umbreytinga hefur borið með sér nýja og aukna spillingarhvata og freistnivanda í viðskiptum og stjórnmálum. Nýsköpunin í leiðum til að hagnast persónulega á kostnað samfélagsins hefur blómstrað og í raun sett lýðræðislega og pólitíska ábyrgð í uppnám. En um leið og spillingarhvatar hafa aukist, hefur spilling orðið ósýnilegri.”

Er það virkilega svo, að áliti J & S, með fulltingi heimspeki- og stjórnsýslufræðinnar, að hluti af stjórnsýslu og því valdi, sem henna fylgir, sé bara sí svona að færast smám saman til markaðshagsmunaaflanna, og það án þess að fulltrúar þeirra séu til þess kjörnir á nokkurn lýðræðislegan hátt? Eru markaðsöfin sem sagt að hrifsa til sín völdin, m.a. í því dásamlega ESB-umhverfi, og eins í BNA og víðar?! Er þetta í raun að gerast einnig hér á landi, eins og Grímseyjarmálið og fleiri siðleysisverk vitna um?

Vaxandi lýðræðishalla þarf að rétta af með trúverðugri opinberri stjórnsýslu

Lýðræðishallinn er sem sé orðinn svo geigvænlegur meðal okkar, að eina leiðin að rót vandans hlýtur að felast í því að vinna gegn þessum halla áður en allt fer á hvolf. Til þess að svo megi verða, þarf að leggja ofuráherslu á stórefla hina opinberu stjórnsýslu, með því að laga hana á lýðræðislegan og lögformlegan hátt að vilja þjóðarinnar, sem velja fulltrúa hennar á þing og í sveitastjórnir í lýðræðislegum kosningum.

Þótt spillingaröflin hafi stuðlað að vantrú á trúverðugleika hinnar opinberu stjórnsýslu, megum við ekki láta það glepja okkur sýn í þessu umbótaferli, heldur einhenda okkur í að stórefla þessa stjórnsýslu okkar, veita henna nauðsynlegt aðhald og hindra um leið óeðlileg afskipti fjármagns-og markaðsafla að landsstjórninni. Það er enginn að banna þeirra stjórnsýslu, svo fremi að þau hafi hana bara fyrir sig.

Að komast fyrir rótina að vanda spilligarinnar, liggur því varla í öðru en að efla hina opinberu stjórnsýslu. Spurningin er bara með hvaða hætti jafn réttur fólks verði best tryggður til lífsgæða óháð búsetu, sem er algjört grundvallaratriði. Þarna er mikið starf óunnið, einkum í því að efla sem best og sem fyrst mestu strjálbýlissvæði landsins , sjálft límið í byggðinni, áður en nærliggjandi þéttbýliskjarnar fara að  hringla í tóminu.

Lausn vandans hrópar á umræðu um millistig í stjórnsýslunni

Viðbúið er að hinn nýi rótarsproti, sem kann að vaxa upp af bættri opinberri stjórnsýslu verði fljótt rifin upp af „hinum ósnertanlegu”, nema að núverandi fyrirkomulag hinnar lögformlegu stjórnsýslu styrki rætur sínar með því að rekja þær í gegnum lögformlegt millistigi í stjórnsýslunni á milli ríkisvalds og sveitarstjórna, með sérstakri áheslu á aukinn trúverðugleika, fjöregg opinberrar stjórnsýslu, eins og J & S nefna réttilega.  Með því móti einu dregur úr hinu ógnvænlega miðstýringarvaldi ríkisins og eflir samsvarandi nauðsynlega og lýðræðislega valddreifingu um allt land, eins og tilfellið er í viðurkenndum valddreifingarlöndum eins og Noregi og Sviss með sínum öflugu, lögformlegu sjálfsstjórnarsvæðum (fylki og kantónur). 

Með þessum tillögum telur höfundur sig í aðalatriðum vera „að beina skipulögðum aðgerðum að rótum vandans”, eins og J & S óska eftir.  Frekari útfærsla á þeim verður að bíða betri tíma, en vísað  m.a. til mikillar umfjöllunar og málafylgju hér á landi um slíkt fyrirkomulag allt frá stríðslokum og fram um 1990 og lauk, illu heilli, með algjörum sigri miðstýringaraflanna. Sá lærdómur og ítarefni frá flestum löndum í kringum okkur, ætti að nýtast vel í næstu sókn.




Skoðun

Sjá meira


×