Innlent

Var að safna fyrir bíl en ákvað svo að gefa allan fermingarpeninginn

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Feðgarnir Viktor Andri og Hermann á skrifstofu ABC Barnahjálpar í dag.
Feðgarnir Viktor Andri og Hermann á skrifstofu ABC Barnahjálpar í dag. Mynd/ABC Barnahjálp
Hinn 13 ára Viktor Andri Hermannsson tók fallega ákvörðun í dag þegar hann bað föður sinn um að koma með sér í bíltúr. Viktor Andri fermdist í Grensáskirkju á dögunum og fékk 167 þúsund krónur að gjöf í tilefni dagsins og ákvörðunar hansað ganga á guðs vegum.

Í frétt á vef ABC barnahjálpar kemur fram að Viktor Andri hafi heimsótt Nytjamarkaðinn ásamt föður sínum. Hann hafi gengið upp að afgreiðsluborðinu og án þess að hika afhent allan fermingarpeninginn til styrktar starfinu.

„Mig langaði að gera eitthvað gott,“ segir Viktor Andri á vef ABC aðspurður um ástæðu örlætisins. Hann ákvað þetta í dag og fékk umsvifalaust samþykki foreldra sinna.

„Ég held það sé ekki hægt að segja nei við þessu,“ sagði Viktor Andri. Hermann Jónsson, faðir hans, segist vera mjög stoltur af syni sínum.

„Við fór­um út í bíl  og ég gat varla talað því ég var svo klökk­ur og stolt­ur en þá sagði hann allt í einu: Pabbi þetta er rétt, það er sælla að gefa en að þiggja. Mér líður svo vel núna,“ segir Hermann í samtali við Mbl.is.

Upprunalega ætlaði Viktor að nota peninginn í að safna fyrir bíl.

„Þegar ég verð nógu gamall mun ég vera kominn með vinnu og get keypt mér bílinn sjálfur,“ segir Viktor Andri. ABC barnahjálp þakkar Viktori Andra kærlega fyrir stuðninginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×