Þýskaland er komið áfram í 8-liða úrslit HM í handbolta eftir öruggan sigur Þýskalands á Egyptalandi, 23-16, í Lusail höllinni í Doha í kvöld.
Þjóðverjar höfðu mikla yfirburði í leiknum þökk sé frábærum varnarleik og stórkostlegri frammistöðu Carsten Lichtlein í markinu.
„Þetta var mjög gott og ég var sérstaklega ánægður með byrjunina, yfirvegunina, varnarleikinn og markvörsluna næstum allan leikinn,“ sagði Dagur í viðtali við Arnar Björnsson eftir leikinn í kvöld.
„Við náðum að halda þeim í skefjum allan leikinn og hleyptum stemningunni ekki upp. Það var mjög mikilvægt og maður heyrði það í lokin hvernig Egyptarnir geta verið þegar þeir komast inn í leikinn.“
Dagur segir að hann hafi hvílt lykilmenn sína þegar Þjóðverjar voru búnir að ná miklu forskoti í leiknum og hann lofaði Carsten Lichtlein í markinu.
„Það er ekki amalegt að fá svona markvörslu í svona mikilvægum leik. Það tekur pressuna af sóknarleiknum. Bara frábært.“
Allt viðtal Arrnars Björnssonar við Dag eftir sigurinn í dag má finna hér fyrir ofan.