Innlent

Dæmi um að borgin bendi á gistiheimili sem úrræði fyrir heimilislausa

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Húsnæðisskortur á höfuðborgarsvæðinu er orðinn svo mikill að dæmi eru um að velferðarsvið Reykjavíkurborgar bendi fólki, sem bíður eftir félagslegu húsnæði, á að setja búslóðir sínar í geymslu og dvelja á gistiheimilum.

Fyrir fimm vikum fékk Marta Dröfn Björnsdóttir, einstæð móðir með fimm mánaða gamalt barn, uppsögn á leigusamningi. Hún leitaði í kjölfarið til Reykjavíkurborgar eftir félagslegu húsnæði, en þar hafði hún verið á biðlista frá því í júní í fyrra.

Á götunni í næstu viku

Í vikunni fékk hún þau svör að ekki væri hægt að hjálpa henni fyrir mánaðarmót, enda eru hátt í þúsund manns á biðlista eftir félagsíbúðum. „Ég er bara á leiðinni á götuna eftir sjö daga með fimm mánaða son minn,“ segir hún.

Ráðgjafi Mörtu hjá félagsþjónustunni benti henni á að hún gæti leitað á gistiheimili þar til hún fær viðeigandi húsnæði og á meðan myndi hún þá setja búslóðina í geymslu. „En það eru engin gistiheimili sem geta tekið við mér og ungu barni,“ segir hún. 

„Maður verður bara þá að setja búslóðina, pakka saman og setja hana í geymslu og svo finnur maður einhverja dýnu eða eitthvað rúm einhverstaðar,“ segir Marta. „Maður verður alveg hýstur en það er vont að eiga ekki heimili, að vera í óöryggi með litla barnið sitt. Maður gerir það sem maður þarf en það er ekki óskastaðan.“

Hvert atvik skoðað

Formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar segir ekki algengt að fólki sé bent á að fara á gistiheimili á meðan beðið er eftir húsnæði. „Það geta komið upp svona undantekningatilvik þar sem þetta er gert en þetta er alltaf metið í hverju tilfelli,“ segir Elín Oddný Sigurðardóttir.

„Við erum með úrræði og leiðir sem við vísum fólki á en við myndum aldrei vísa á þannig úrræði til langs tíma þannig að það er alltaf unnið í málinu samhliða til að finna varanlegri lausn á meðan fólk er að bíða,“ segir hún. 

Í slíkum tilfellum sé metið hvort borgin taki þátt í kostnaði við að dvelja á gistiheimilum. „Það er misjafnt. Það hefur oft verið greitt til dæmis fyrir búslóðageymslu og þá þann kostnað sem hlýst af því að geta ekki flutt strax á milli tveggja íbúða heldur að þurfa að fara í tímabundið úrræði á milli,“ segir hún. 

„Þannig að við höfum verið að greiða fyrir slíka þjónustu en það er bara eins og ég segi metið í hverju tilfelli fyrir sig og náttúrulega reynt að hafa þetta ekki fjárhagslega íþyngjandi fyrir okkar skjólstæðinga, ef það er hægt,“ segir Elín Oddný.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×