Íslandsmeistarar Gróttu hafa ákveðið að taka ekki þátt í Evrópukeppni á þessu tímabili en það staðfestir Arnar Þorkelsson, formaður handknattleiksdeildar félagsins, í samtali við Morgunblaðið.
Grótta varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögu félagsins í vor eftir sigur á Stjörnunni í úrslitarimmu Olísdeildar kvenna.
„Við fórum vel yfir þessi mál, bæði stjórn og leikmenn. Kostnaður af þátttöku í Evrópukeppni er gífurlegur og við komumst að sameiginlegri niðurstöðu,“ sagði Arnar sem segir að liðið muni einbeita sér að keppnunum hérlendis.
ÍBV mun eiga bæði karla- og kvennalið í Áskorendakeppni Evrópu en karlalið Hauka og kvennalið Fram í EHF-bikarnum.
