Enski boltinn

Lloris sagður vilja fara til Meistaradeildarliðs

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Enska blaðið Guardian heldur því fram að franski markvörðurinn Hugo Lloris gæti verið á leið frá Tottenham í sumar.

Lloris kom til félagsins árið 2012 frá Lyon í þeirri von um að Tottenham myndi spila reglulega í Meistaradeild Evrópu. Það hefur þó ekki gerst.

Það er ólíklegt að Lloris fái að spila í Meistaradeildinni á næsta tímabili þar sem að Tottenham er nú sjö stigum á eftir Manchester City í baráttunni um fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar.

Lloris er fyriliði franska landsliðsins og nánast allir félagar hans þar spila í Meistaradeildinni. Hann er sagður pirraður á stöðunni og mun hafa gert forráðamönnum Tottenham ljóst að hann vilji mögulega leita annað.

Tottenham fékk Michel Vorm frá Swansea fyrir 4,5 milljónir punda aðeins tveimur vikum eftir að félagið gerði nýjan fimm ára samning við Lloris í sumar. Maðurinn sem gæti fyllt í skarð Frakkans hjá Tottenham er því þegar hjá félaginu.

David De Gea, markvörður Manchester United, hefur verið orðaður við Real Madrid og er fullyrt í greininni að Lloris gæti mögulega orðið eftirmaður Spánverjans hjá United.

Tottenham hefur áður misst öfluga leikmenn sem eru með langa samninga. Luka Modric skrifaði undir sex ára samning árið 2010 en fór til Real Madrid tveimur árum síðar og Gareth Bale framlengdi sinn samning um fjögur ár árið 2012 en var farinn til sama félags ári síðar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×