Skoðun

Saga þjóðar

Hafdís Hanna Ægisdóttir skrifar
Það er vetur. Jörð er frosin og vorverkin í garðinum fjarri huga okkar. En með hækkandi sól sjáum við fyrr en síðar merki um að sumar sé í nánd þegar moldin þiðnar og gróðurinn lifnar við. Moldin  undir fótum okkar er ein dýrmætasta auðlind jarðar. Moldin er hvorki líflaus né óáhugaverð, hún er full af lífi, hún er undirstaða fæðuframboðs í heiminum, hreinsar og miðlar vatni  og er samofin sögu okkar og menningu.

Verndun jarðvegs er okkur Íslendingum hjartans mál. Við landnám var landið gróið og gjöfult en ósjálfbær landnýting í bland við óblíð náttúruöflin ollu því að landið var tötrum klætt í byrjun 20. aldar. Mikið og gott landgræðslustarf síðustu rúm 100 árin hefur skilað miklu en betur má ef duga skal. Til að vekja athygli á moldinni eða jarðveginum  hafa Sameinuðu þjóðirnar nú tilnefnt 2015 sem alþjóðlegt ár jarðvegs.

Í tilefni af því mun Hið íslenska náttúrufræðifélag bjóða upp á erindi Ólafs Arnalds, jarðvegsfræðings við Landbúnaðarháskóla Íslands, „Því af mold ert þú...“ á undan aðalfundi félagsins á morgun, laugardaginn 21. febrúar, kl. 14 í sal Þjóðminjasafnsins.

Hinu íslenska náttúrufræðifélagi er fátt óviðkomandi er kemur að náttúru landsins og er jarðvegurinn þar svo sannarlega ekki undanskilinn. Félagið á sér langa sögu en það var stofnað árið 1889. Tilgangur þess er að efla íslensk náttúruvísindi, glæða áhuga og auka þekkingu manna á öllu er snertir náttúrufræði. Félagið gefur út alþýðlega fræðsluritið Náttúrufræðinginn í samvinnu við Náttúruminjasafn Íslands ásamt því að halda fræðsluerindi og láta sig málefni náttúrufræða varða.

Jarðvegurinn undir fótum okkar á sér sögu. Sögu eldgosa – sögu hnignunar – sögu vistheimtar – sögu þjóðar. Jarðvegi þarf að hlúa að og vernda. Það er von okkar í Hinu íslenska náttúrufræðifélagi að alþjóðlegt ár jarðvegs árið 2015 muni vekja athygli á þessari verðmætu en takmörkuðu auðlind því að heilbrigður jarðvegur stuðlar að heilbrigðri jörð.




Skoðun

Sjá meira


×