Skoðun

Leiguíbúðir fyrir efnameiri í forgang í Mosfellsbæ

Sigrún H. Pálsdóttir skrifar
Nýverið gerði Íbúahreyfingin tillögur starfshóps Sjálfstæðisflokks, Samfylkingar og Vinstri grænna um uppbyggingu leiguhúsnæðis í miðbæ Mosfellsbæjar að umræðuefni í bæjarstjórn. Ástæðan er sú að þær fela ekki í sér nein úrræði fyrir unga og efnaminni íbúa, heldur einungis þá efnameiri.

Lóðarvalið segir sína sögu. Það á að byggja í miðbænum þar sem íbúðir eru eftirsóttar og byggingarkostnaður hár vegna kvaða um bílakjallara og fleira. Staðsetningin ein kallar því á hátt sölu- og leiguverð nema til komi sértækar ráðstafanir sveitarfélagsins.

Í umræðum kom fram að starfshópurinn ætlar hvorki að hafa frumkvæði að samstarfi við húsnæðissamvinnufélög, - en þau eru rekin án hagnaðarsjónarmiða, - né lækka gatnagerðargjöld. Orðrétt sagði bæjarstjóri: „Leiguverð ræðst af markaðsaðstæðum. Bærinn mun ekki koma með neinum hætti að rekstri þessara íbúða og þetta eru ekki félagslegar leiguíbúðir, heldur almennt leiguhúsnæði á frjálsum markaði.“ Það er sem sagt framboðið sem á að sjá til þess að lækka leiguverð. En hvað styður þá kenningu? Þetta eru einungis þrjátíu íbúðir á dýrasta stað í bænum.

Samkvæmt minnisblaði á að úthluta lóðum fyrir sextíu íbúðir á mörkum Þverholts og Skeiðholts í miðbæ Mosfellsbæjar. Í fyrsta áfanga á að byggja fjörutíu íbúðir, þar af þrjátíu leiguíbúðir sem á hvílir þinglýst kvöð um varanlega útleigu sem er besta mál. En að aflétta þinglýstri kvöð er auðvelt og engar aðgerðir til lækkunar á upphafskostnaði sem stuðla að viðráðanlegri leigu til frambúðar. Í tillögunum segir ekkert um hvernig haga skuli rekstri, halda utan um útleigu, viðhald og fleira.

Á bæjarstjórnarfundinum lýsti undirrituð afstöðu Íbúahreyfingarinnar til málsins: „Íbúahreyfingin er tilbúin til að koma að vinnu valnefndarinnar sem fái jafnframt það hlutverk að tryggja að væntanlegar leiguíbúðir verði á viðráðanlegu verði og útfærsla á því hvernig rekstur og fyrirkomulag leiguíbúðanna verði tryggð til langs tíma. Íbúahreyfingin telur mjög mikilvægt að allar raddir heyrist við undirbúning þessa máls. En […] lítur svo á að markmið með úthlutun lóða undir leiguíbúðir sé fyrst og fremst að tryggja fólki og þá sérstaklega ungu fólki leiguíbúðir á sem lægstu leigugjaldi til langs tíma.“

Gæta þarf jafnræðis

Íbúahreyfingin tekur undir nauðsyn þess að byggja upp leigumarkað í Mosfellsbæ. Íslensk heimili eru í sárum eftir mesta bankahrun sögunnar og sögð þau skuldsettustu í heimi. Nú sex árum síðar hefur mikill fjöldi fólks misst húsnæði sitt og lánshæfi í bönkunum. Margir eru því ekki borgunarmenn fyrir eigin húsnæði. Enn aðrir geta ekki hugsað sér að láta binda sig aftur á skuldaklafann. Uppbygging leigumarkaðar er því knýjandi.

Þetta fyrsta skref í þróun leigumarkaðar í Mosfellsbæ er með öðrum formerkjum en Íbúahreyfingin hefði kosið. Forgangsröðunin vekur undrun. Undirrituð frétti fyrst af tilvist starfshópsins á fundi bæjarráðs nú í lok janúar. Hefði ekki verið skynsamlegra að hafa þverpólitíska sátt um svo mikilvægt mál? Og muna að sveitarstjórnir þurfa að gæta jafnræðis í ákvörðunum sínum, muna að það er líka þeirra verkefni að tryggja ungum og efnaminni fjölskyldum leiguhúsnæði á viðráðanlegu leiguverði.

Í stefnumótandi starfi í bæjarstjórn þurfa ráðandi öfl að þola að hlusta á öll sjónarmið. Þannig er lýðræðið.




Skoðun

Skoðun

Stöðvum hel­víti á jörðu

Birna Þórarinsdóttir,Bjarni Gíslason,Gísli Rafn Ólafsson,Sigríður Schram,Stella Samúelsdóttir,Tótla I. Sæmundsdóttir skrifar

Sjá meira


×