Skoðun

Hver er að græða?

Hörður Harðarson skrifar
„Verðlækkun skilar sér ekki til neytenda“ var fyrirsögn fréttar Fréttablaðsins þann 16. febrúar. Í henni kemur fram að á undanförnum árum hafi verð á kjöti til svínabænda lækkað jafnt og þétt en á sama tíma hafi verðið á kjötinu út úr búð hækkað. Spurningin sem eftir situr er, úr því að neytendur fá ekki að njóta þessarar verðlækkunar: Hver er þá að græða?

Eins og fram kemur í frétt Fréttablaðsins hefur verð til svínabænda lækkað um 8,9% á síðustu tveimur árum en verðið út úr búð hækkað á sama tíma um 8,5%. Bændur skila sínu kjöti til kjötvinnslufyrirtækja sem síðan selja það til verslana. Það bendir því flest til þess að ágóðinn af þessari verðlækkun sé tekinn út annað hvort hjá kjötvinnslufyrirtækjum eða verslunum, eða báðum. Það er mikilvægt að neytendur fái svör við þessu.

Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að hafa í huga að frá árinu 2010 hefur innflutningur á kjöti nær fimmfaldast og samhliða því hefur hlutfall tolla af innflutningsverði lækkað snarlega. Eins og fram kemur í frétt Fréttablaðsins hefur verðið út úr búð engu að síður hækkað verulega á undanförnum árum. Það er því ljóst að íslenskir neytendur hafa ekki hagnast á þessum aukna innflutningi þrátt fyrir að tollar hafi lækkað verulega, heldur þvert á móti. Aftur er því spurt: Hver er þá að græða? Sem fyrr virðast það vera fyrirtæki í verslunarrekstri, kjötvinnslu eða innflutningi. Það er mikilvægt að neytendur fái svör við þessu.

Fulltrúar fyrirtækja í verslun, kjötvinnslu og innflutningi hafa gengið harkalega fram í opinberri umræðu gagnvart bændum og gagnrýnt þá fyrir að tryggja ekki landbúnaðarafurðir á lægra verði. Þar hafa þeir látið að því liggja að þeir beri hagsmuni neytenda fyrir brjósti. Nú hafa hins vegar komið fram vísbendingar um að þeir hafi stungið ágóða sem neytendur ættu að njóta beint í eigin vasa. Þeir skulda neytendum svör.




Skoðun

Sjá meira


×