Formúla 1

Red Bull og Ferrari með auga á McLaren

Kristinn Ásgeir Gylfason skrifar
Kimi Raikkonen og Fernando Alonso eiga líklega eftir að berjast á jafnari grundvelli 2016.
Kimi Raikkonen og Fernando Alonso eiga líklega eftir að berjast á jafnari grundvelli 2016. Vísir/Getty
McLaren gæti ógnað Red Bull á næsta tímabili ef marka má helsta hönnunargúrúið í Formúlu 1, Adrian Newey. Ferrari gæti líka fundið fyrir McLaren samkvæmt liðsstjóra Ferrari.

Maurizio Arrivabene, liðsstjóri Ferrari hefur varað við að liðin í toppbaráttunni vanmeti mögulega upprisu McLaren á næsta ári.

„Við munum örugglega sjá samkeppnishæfara McLaren lið á næsta ári, Honda er ekki einhver sem er rétt að vanmeta. Ég held að heimsmeistarakeppnin verði miklu áhugaverðari en þessi sem er nýlokið,“ sagði Arrivabene.

Newey telur að það sé frekar auðvelt að laga vandamál Honda á milli tímabila og þá telur hann að liðið muni rjúka upp listann.

„Ég held að Honda muni taka stórt skref, miðað við það sem við höfum séð. Ég held að vélarblokk þeirra sé ágætis vél,“ sagði Newey.

„Vandamál þeirra í ár hefur verið að rafallinn við túrbínuna var allt of lítill. En það er auðvelt að laga í vetur,“ bætti Newey við.

Newey varar við því að Red Bull gæti færst aftar í röðinni þegar liðin fyrir aftan taka framförum sem færa þau upp fyrir Red Bull.

„Að því gefnu að við hefjum tímabilið með sama afl og við höfðum árin 2014 og 2015, sem ég tel líklegt, þá munum við færast enn aftar,“ sagði Newey að lokum.


Tengdar fréttir

Red Bull notar Tag Heuer vél

Red Bull liðið mun nota Renault vél á næsta ári sem merkt verður úraframleiðandanum Tag Heuer.

McLaren á tvær sekúndur inni

Ökumenn McLaren liðsins, Fernando Alonso og Jenson Button telja tveggja sekúndna framfarir afar mögulegar í vetur. Þeir telja mögulegt að þeir muni berjast um verðlaunasæti á næsta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×