Innlent

Getum hindrað HIV-smit

Snærós Sindradóttir skrifar
Í júlí var maður úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að smita konur vísvitandi af HIV veirunni. Tvær konur voru staðfestar með smit.
Í júlí var maður úrskurðaður í gæsluvarðhald grunaður um að smita konur vísvitandi af HIV veirunni. Tvær konur voru staðfestar með smit. vísir/pjetur
Tólf einstaklingar hafa verið greindir með HIV á árinu sem er að líða, meirihlutinn erlendir ríkisborgarar. Sprautufíklar eru ekki algengir innan hópsins. Þetta segja tölur frá Landlæknisembættinu.

Tvær konur eru í tólf manna hópnum. Eftir því sem Fréttablaðið kemst næst má rekja smit þeirra til nígerísks hælisleitanda sem úrskurðaður var í gæsluvarðhald í júlí, grunaður um að smita konur vísvitandi af veirunni. Ekki fengust upplýsingar frá lögreglu um hvar mál hans er statt í kerfinu við vinnslu fréttarinnar en maðurinn heldur fram sakleysi sínu.

Mikill þrýstingur hefur verið í Evrópu um að taka upp svokölluð PrEP-lyf til að fyrirbyggja HIV-smit fyrir þá sem eru í áhættuhópi. Lyfjagjöf hefur gefið góða raun í Bandaríkjunum en rannsóknir sýna að inntaka HIV-lyfsins Truvada er nærri örugg til að koma í veg fyrir smit.

„Lyfjaeftirlitið í Bandaríkjunum samþykkti þetta í júlí 2012 en Evrópa hefur ekki enn samþykkt þetta. Á meðan þetta er ekki enn samþykkt sem lyf til að nota undir þessum kringumstæðum þá getum við ekki notað það. Þó við eigum þetta lyf,“ segir Bryndís Sigurðardóttir, yfirlæknir á smitsjúkdómadeild Landspítalans.

„Rannsóknir eru farnar að sýna í fyrsta lagi að fólk er ekki að nota smokka. Við breytum ekki kynhegðun fólks. Fólk hættir ekki að sofa hjá. Og við vitum að líklega veit einn þriðji þeirra sem eru með HIV í heiminum í dag ekki af smitinu,“ segir Bryndís. Lyfið kostar 150 þúsund krónur á mánuði, sem mörgum kann að þykja dýrt fyrir fyrirbyggjandi lyf.

Einar Þór Jónsson framkvæmdastjóri HIV samtakanna
Einar Þór Jónsson, framkvæmdastjóri HIV-Ísland, segir samtökin fylgjast vel með baráttunni erlendis. „Það er mikill þrýstingur, ekki bara á Íslandi heldur út um allan heim, og sérstaklega meðal samkynhneigðra karla og fólks sem býr í samböndum og hjónaböndum þar sem annar aðilinn er með HIV.“



Hann tekur þó fram að ef fólk er á lyfjum gegn veirunni þá fer veiran í dvala og fólk er ekki smitandi lengur. „Þetta er að verða allt annað landslag en það var fyrir nokkrum árum síðan.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×