Skoðun

Af íþróttaafrekum kvenna og karla

Dóra Magnúsdóttir skrifar
Tilkynnt verður um Íþróttamann ársins, sem valinn er af Samtökum íþróttafréttamanna, þann 30. desember nk. Kjörið hefur vakið athygli á undanförnum árum vegna gríðarlegs kynjahalla. Þannig hefur umræðan um ójafnréttið skyggt á glæsileg afrek þess íþróttafólks sem hlotið hefur verðlaunin. Frá árinu 1956 hafa 4 konur verið sæmdar þessari heiðursnafnbót en 55 karlar.

Óvíða er ójafnréttið meira en í íþróttum. Glöggir femínistar hafa kortlagt umfjöllun á íþróttafréttasíðum dagblaðanna á árinu og komist að því að umfjöllun um afrek kvenna er á bilinu 0-10%. Í fréttabréfi íþróttafélags barnanna minna, þar sem dóttir mín og sonur æfa sínar íþróttir, mátti sjá 23 myndir tengdar greinum af strákastarfinu, 5 myndir af stelpum og 10 myndir voru kynhlutlausar. Fréttnæmt þótti á árinu að drengjalið fékk stóran bikar en stúlkur lítinn bikar á ónefndu íþróttamóti; sama mót, sami aldur og sama íþrótt. Um mistök var að ræða en einhverra hluta vegna fór þetta ekki á hinn veginn; að drengirnir fengu óvart litla bikarinn. Meira er lagt í aðstöðu fyrir íþróttir sem eru vinsælli meðal drengja (s.s. fótbolta) og minna í aðstöðu fyrir íþróttir sem eru vinsælli meðal stúlkna (s.s. fimleika). Meira fé er varið í íþróttastarf karla, þeir hafa meiri möguleika á að starfa sem atvinnumenn í íþróttum og ungar stúlkur hætta fyrr að stunda íþróttir.

Og svo framvegis.

ÍTR skoraði nýlega á samtökin að velja bæði íþróttamann og íþróttakonu ársins og auka þannig sýnileika kvenna í íþróttum: „Íþrótta- og tómstundaráð Reykjavíkur vill skora á Samtök íþróttafréttamanna, sem standa árlega að vali Íþróttamanns Íslands, að breyta núverandi fyrirkomulagi þannig að bæði verði fyrir valinu Íþróttamaður og Íþróttakona Íslands. Fyrirmyndir hvetja ungt fólk til frekari dáða og því mikilvægt að bæði kynin séu sýnileg börnum og ungmennum.“ Ef samtökin taka þetta mikilvæga skref mun umræðan um verðlaunin hætta að litast af því hvort karl fái verðlaunin í 56. sinn eða kona í 5. sinn. Verðlaunin eiga að snúast um afrekin sjálf og þau eru unnin af bæði körlum og konum.




Skoðun

Skoðun

Er þetta eðli­legt?

Guðrún Árnadóttir,Guðrún Tara Sveinsdóttir,Hekla Kollmar,Þorgerður Jörundsdóttir skrifar

Sjá meira


×