Skoðun

Kæri Sigmundur Davíð forsætisráðherra!

Helen Sjöfn Steinarsdóttir skrifar
Þú ötuli landsfaðir sem í orði og á borði berð hag þjóðar þinnar fyrir brjósti og berst fyrir jafnrétti og jafnræði í þjóðfélaginu. Ég er öryrki og bíð spennt eftir þeirri örsnöggu lífskjarabót sem þú hefur boðað okkur um áramótin.

En, nú eru að koma jól og ég verð að viðurkenna að mig dreymir um að geta gert mér smá dagamun og líka glatt mína nánustu. Ég á eitt barnabarn sem mig langar að gefa jólagjöf og þar sem ég er ekki einu sinni með tíu þumalfingur heldur tuttugu tær eru föndur og/eða handavinna út úr myndinni. Barnið er mikill bókaormur og langar mig óskaplega að geta keypt handa því einhverja af þeim skemmtilegu barnabókum sem voru að koma út.

Þar sem ég hef leitað árlega til hjálparsamtaka hef ég ekki áhyggjur af því að svelta. Fjölskylda mín og vinir eiga nóg með sig en hafa samt hingað til styrkt mig eftir bestu getu og ég bara get ekki hugsað mér að leita til þeirra einu sinni enn.

Því datt mér í hug, kæri Sigmundur Davíð, að þú prívat og persónulega, værir kannski til í að styrkja mig um smáupphæð fyrir jólin (held að nýútkomin barnabók gæti kostað 3-4 þús. kr.)? Ég frétti nefnilega á skotspónum að þú hefðir fengið sanngjarna launahækkun, meira að segja nokkra mánuði aftur í tímann, og ert því kannski aflögufær!

Ef illa árar hjá þér myndi ég líka þiggja lán sem ég gæti þá borgað þér eftir áramótin þegar ég verð búin að fá mína sanngjörnu hækkun. Að lokum óska ég þér gleðilegra jóla og áframhaldandi farsældar á nýju ári!

Með fullri virðingu, von í hjarta og fyrirfram þökk!

P.s. Ef þú vilt fá bankaupplýsingarnar mínar, þá er ég í símaskránni!
Skoðun

Skoðun

Taktu tvær

Arnar I. Jónsson,Heiðrún Björk Gísladóttir skrifar

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.